131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:22]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég flutti ræðu fyrr í dag þar sem ég boðaði endurkomu mína í þennan stól þar sem ekki gafst tími til að fara yfir alla þá efnisþætti sem ræða hæstv. utanríkisráðherra spannaði. Ég ræddi nokkuð um innrásina í Írak og furðaði mig á þeim staðhæfingum sem hæstv. utanríkisráðherra setti fram um að íslenska ríkisstjórnin hefði engar efasemdir um réttmæti þess að ráðist var inn í Írak, að þjóðinni vegnaði nú betur en áður þótt við heyrum það í hverjum fréttatíma á fætur öðrum að átök fari vaxandi í landinu. 100 þúsund manns, þar af 50 þúsund konur og börn, hafa fallið í átökum frá því að innrásin var gerð og ekki er séð fyrir endann á þeirri voveiflegu atburðarás.

Ég vék einnig að átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs og furðaði mig á yfirlýsingum hæstv. utanríkisráðherra sem telur greinilega að Sharon, núverandi forsætisráðherra Ísraels, hafi frumkvæði að friðarsamningum. Staðreyndin er sú að Sharon er í hópi allra hörðustu haukanna sem hafa staðið í vegi fyrir því að samningar nást. Í því sambandi vitnaði ég í fréttafrásögn í Morgunblaðinu frá 7. október þar sem einn helsti ráðgjafi Sharons, Dov Weisglass að nafni, var með fullyrðingar í þá veru.

Ég ætla að segja örfá orð um Afganistan. Hæstv. utanríkisráðherra telur greinilega allt vera í lukkunnar velstandi þar, nýafstaðnar kosningar og hernámsliðið hafi náð fram markmiðum sínum. Staðreyndin er sú að svo er ekki. Við urðum vitni að því úr fjarlægð þegar íslenskir friðargæsluliðar eða hermenn, hvaða nafni sem við eigum að kalla þá, urðu fyrir árás í Kabúl, sem á þó að vera eitt af „frelsuðu svæðunum“.

En mig langar til að víkja að hlutskipti kvenna í Afganistan. Menn vísa oft í slæmt hlutskipti þeirra fyrr og nú, að það sé ekki saman að jafna ástandinu nú og fyrir innrásina. Ég held að þetta sé mikil einföldun á málinu.

Skömmu eftir innrásina í Afganistan, ég held að það hafi verið í desember 2001, tveimur mánuðum eftir að ráðist var inn í landið, var haft eftir Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að ekki yrði samið á kostnað afganskra kvenna, ,,the rights of Afghan women are not negotiable“, held ég að það hafi verið orðað á ensku, með leyfi forseta.

Það er einmitt þetta sem hefur gerst. Það er búið að semja á kostnað afganskra kvenna og landinu er nú stýrt af stríðsherrum sem hafa fótum troðið réttindi kvenna. Ég held ég hafi náð því áður en ég lauk ræðu minni að vitna í blaðagrein sem birtist í breska stórblaðinu Guardian í febrúar sl. þar sem þetta var mjög rækilega rakið. Þetta er því afskaplega mikil einföldun á þeirri stöðu og því ástandi sem nú er uppi í Afganistan.

Mig langar til að víkja örlítið að friðargæslunni, sem svo er nefnd. Ég og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt áherslu á að Íslendingar kæmu að hjálpar- og uppbyggingarstarfi, þess vegna friðargæslustarfi, en ekki undir þeim formerkjum sem nú er gert. Við höfum verið fylgjandi því sem er að gerast á Sri Lanka svo dæmi sé tekið. Þar hafa Norðmenn gengið fram fyrir skjöldu og haft frumkvæði í átt til friðar þar sem tamílar hafa átt í höggi við ríkisvaldið eða ríkisvaldið við tamíla, eftir því hvernig við stillum því dæmi upp, þar sem ófriður hefur ríkt m.ö.o. og þar er unnið að friði og Íslendingar koma að því máli.

Það sem hins vegar virðist vera að gerast er að íslenska ríkisstjórnin er að hnýta okkur sífellt fastar við utanríkisstefnu Bandaríkjanna og nú virðist það ætla að verða hlutskipti NATO að verða eins konar hreinsunardeildur eftir að bandaríski herinn hefur farið sprengjandi um löndin. Þá er kallað á NATO og þar með Íslendinga. Þetta er iðulega gert í nafni Sameinuðu þjóðanna.

Það er alveg rétt sem fram kom hjá hæstv. utanríkisráðherra, að það sem nú er að gerast í Afganistan, í Írak, er vissulega í nafni Sameinuðu þjóðanna, en hvernig er þeirri niðurstöðu náð? Hvað hefur gerst í öryggisráðinu á undangengnum árum þegar Bandaríkjamenn knýja fram vilja sinn? Ég gæti rakið það í ítarlegu máli hvað þar hefur gerst, hvaða þrýstingi hefur verið beitt til að ná fram niðurstöðum. En þrátt fyrir mikinn þrýsting í aðdraganda innrásarinnar í Írak tókst þó ekki að fá stimpilinn á sjálfa innrásina á sínum tíma.

Það sem síðan gerist er að heimsbyggðin stendur frammi fyrir vanda eftir að ráðist er á land, Afganistan, Írak, og menn verða að reyna að greiða úr þeim flækjum sem uppi eru og þá er iðulega úr vöndu að ráða.

Ég tel hins vegar að Íslendingar eigi að láta að sér kveða, fyrst og fremst á þeim sviðum sem þeir hafa sérþekkingu á og ekki í þessu nána slagtogi með Bandaríkjastjórn, með NATO og Bandaríkjastjórn.

Um miðjan síðasta mánuð kom ákall frá Bandaríkjunum um að þessar friðargæslusveitir sem starfa í samvinnu við NATO í Afganistan verði sameinaðar bandarískum herafla sem þar á í höggi við hryðjuverkamenn, War on terror eins og Bandaríkjamenn kalla það. Í breska stórblaðinu Guardian segir 15. október, og ég ætla að koma með tilvitnun hér á ensku, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„This week´s US proposal to integrate Nato´s peacekeepers in Afghanistan with US combat troops fighting the "war on terror" there is a case in point.“

Hér er vitnað í tillögu Bandaríkjamanna um að sameina friðargæslusveitir í Afganistan bandaríska heraflanum þar. Ég spurði um það við utandagskrárumræðu fyrir fáeinum dögum hver hefðu orðið viðbrögð, eða hver yrðu viðbrögð eða hvort rædd hefðu verið viðbrögð, af hálfu íslenskra stjórnvalda við þessari ósk. Nú er það komið á daginn og kom fram í framsöguræðu hæstv. utanríkisráðherra að til stæði að Íslendingar kæmu einnig að málum í Írak, legðu sitt af mörkum til að þjálfa írakskar öryggissveitir. Hæstv. ráðherra hefur svarað því til að þar sé átt við aðstoð við sprengjuleit og annað af því tagi. Allt ber þetta að sama brunni, smám saman er verið að sameina friðargæsluna heraflanum, bandaríska heraflanum í Afganistan og í Írak.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum mjög miklar efasemdir um þessa þróun, höfum andmælt henni og ég ítreka þau mótmæli sem við höfum sett fram.

Í ræðu sinni vék hæstv. utanríkisráðherra m.a. að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og dásamaði mjög starfið á þeim bænum. Hann sagði eitthvað í þá veru — ég finn ekki ummælin — að starfið í Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO, væri sérstaklega til hagsbóta fyrir þriðja heims ríki. Gott ef hann vitnaði ekki í því efni í Cancún-fundinn sem var haldinn fyrir ekki svo ýkja löngu. Þetta tel ég hin örgustu og verstu öfugmæli. Það starf sem unnið er á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunar gagnast aldeilis ekki þriðja heiminum og ekki fátækum ríkjum þessa heims. Í fyrsta lagi er unnið að því á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunar að þróa svokallaðan GATS-samning, General Agreement on Trade in Services. Þetta er fyrst og fremst markaðsvæðingarsamningur. Slagurinn stendur um það hvort opna eigi markaðsöflunum leið inn í velferðarkerfi landanna, inn eftir spítalaganginum og inn í skólastofuna, inn í vatnið og rafveiturnar. Þetta er slagurinn um það. Þetta er slagurinn um GATS. Síðan var slegist um landbúnaðarmál og um tollastefnu. Um hvað var deilt og hverjar voru kröfurnar sem fram voru settar í Cancún á sínum tíma? Í hverju er fólginn þessi mikli rausnarskapur ríkra iðnríkja í garð snauðra þriðja heims ríkja? Evrópusambandið hugðist lækka tolla um 30% og Bandaríkin minna en 25% en sum af fátækustu ríkjunum, svo sem Bólívía og Kenía, áttu að fella niður 80% af sínum tollum. Þetta er nú réttlætið.

Meira að segja forsætisráðherra Kanada, Jean Chrétien, sem þó stóð að þessari tillögu viðurkenndi eftir fundinn að þarna hefðu iðnríkin gengið of langt. Engu að síður eru menn á þessum bænum enn þá við sama heygarðshornið, halda fram þessum ómenguðu frjálshyggjuhugmyndum og staðhæfingum sem gert var þá. Nú hristir hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson höfuðið og verður mjög fróðlegt að hlusta á innlegg hans til utanríkisumræðunnar hér á eftir. Þá verður sérstaklega gaman að heyra hvað hann hefur að segja um GATS-samningana og samningana sem fara fram á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fyrst hann sér ástæðu til að hrista höfuðið með fyrirlitningu yfir þessum staðhæfingum sem þó eru sannar. (GÞÞ: Þetta er rugl.) Rugl, segir hv. þm., og nú skal hann færa rök fyrir máli sínu. Það væri mjög fróðlegt að heyra hann færa rök fyrir því.

Ég hef í rauninni mörgu við að bæta en tími minn er senn út runninn við þessa umræðu. Víða var komið við í ræðu ráðherrans en hún er þó ekki mjög á dýptina, kannski tímans vegna. Það er hreyft við ýmsum málum og mér finnst sá tónn sem hér er boðaður ekki góður. Ég hef verið spurður hvort breyting hafi orðið með nýjum ráðherra. Ég held ekki. Ég held að innhaldið sé mjög svipað. Þeir eru mjög samstiga, þessir pólitísku tvíburar, hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson og hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddsson, að öllu innihaldi en blæbrigðamunur er vissulega. Kenni ég hans fyrst og fremst kannski í afstöðunni til Palestínu og Palestínumanna. Þar þykir mér kveða við heldur harðari, afdráttarlausari og óbilgjarnari tón í garð Palestínumanna og frelsisbaráttu þeirra en áður gerði. Að öllu innihaldi er stefnan þó mjög svipuð og áður var. Það hlýtur að vera okkur öllum harmsefni.