131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:07]

Þuríður Backman (Vg):

Frú forseti. Komið er að lokum þessarar umræðu um utanríkismál sem hófst í morgun með ræðu hæstv. utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar og hefur staðið í allan dag. Ég vil þó taka undir orð margra sem hér hafa talað að eftir sem áður eftir langan dag býr það í brjósti margra að tíminn fyrir hvern og einn sé of knappur til þess að fara yfir svo vítt svið sem umræðan býður upp á. Hér er allt undir hvað varðar utanríkismál og af nógu að taka. Frú forseti. Ég vil taka það fram að af svo víðfeðmu efni má ekki túlka það svo að viðkomandi ræðumaður sé samþykkur öllu sem ekki er nefnt og ekki er hægt að koma að í stuttri ræðu. En eins og kom fram fyrr í dag þar sem mál Evrópusambandsins höfðu ekki komist inn í ræðu ákveðins þingmanns var það tekið sem svo að hv. þingmaður legði blessun sína yfir allt sem væri að gerast á því sviði en svo þarf ekki að vera.

Ég óska hæstv. utanríkisráðherra til hamingju með sína fyrstu ræðu á nýjum vettvangi. Það var ekki að vænta mikilla breytinga á stefnu í stefnuræðu hæstv. utanríkisráðherra, það gerist ekki mikið þó að skipt sé um skipstjóra í brúnni þegar hæstv. ríkisstjórn hefur verið svo samstillt í sínum utanríkismálum og utanríkisstefnu. Það hefði komið okkur á óvart ef við hefðum séð hér einhverja kúvendingu.

Þó vil ég segja að þó svo að ekki séu miklar áherslubreytingar í ræðu hæstv. utanríkisráðherra frá þeim fyrri þá er eins og að eingöngu orðalagið, málnotkunin geri stefnuna skýrari og geri það enn ljósara hvert hæstv. ríkisstjórn stefnir. Það er orðið deginum ljósara af innihaldi ræðunnar að áhersla ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum er að þjónka sem best Bandaríkjastjórn og þá í þeim tilgangi að ná sem bestum árangri í samningaviðræðunum fram undan við Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem fram eiga að fara 16. nóvember næstkomandi. Umræðurnar eiga að fjalla um áframhaldandi setu bandaríska hersins þar sem hæstv. ríkisstjórn er svo umhugað um að halda bandaríska hernum hér áfram og helst með óbreytta starfsemi undir því flaggi að hér verði að vera öflugar landvarnir, en það sem ekki er sagt hátt en býr þar að baki er að horft er til þess fjölda starfa sem fylgja setu hersins á Keflavíkurflugvelli þar sem áherslan er lögð á þann þátt þrátt fyrir breytta heimsmynd, og að þar af leiðandi ættu þjóðir heims að horfa til þeirrar hernaðaruppbyggingar í sínu landi sem var byggð upp á dögum kalda stríðsins.

Til þess að ná sem bestum árangri í fyrirhuguðum samningaviðræðum hefur ofuráhersla verið lögð á það undanfarið ár að stilla sér dyggilega upp við hlið Bandaríkjastjórnar og styðja stefnu þeirra. Þetta var því miður mjög augljóst þegar við fengum þær fréttir, íslenska þjóðin, að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra hefðu í sameiningu sett íslensku þjóðina óspurða og án vitundar þingsins inn á lista hinna staðföstu þjóða. Mönnum var brugðið, mér var mjög brugðið við að heyra þessa frétt vitandi það að þarna vorum við búin að stilla okkur upp á lista sem gæti hugsanlega, og í mínum huga alveg örugglega, sett svartan blett á ímynd íslensku þjóðarinnar til lengri tíma litið.

Það var sagt þá og það er sagt enn að innrásin hafi verið studd þar sem Sameinuðu þjóðirnar réðu ekki við verkefnið sem var ærið, að koma Saddam Hussein frá völdum og koma á lýðræðislegri skipan í Írak. Þetta átti að vera eina ráðið. Innrásin var hins vegar gerð án samþykkis Sameinuðu þjóðanna og hún var ólögleg. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því að það kom í ljós að ástæðan sem var gefin upp, að þar væru gereyðingarvopn sem hægt væri að nota gegn þjóðum, hélt ekki, vopnin fundust ekki. Nú er alveg ljóst að það var vitað að vopnin mundu ekki finnast því að það var búið að eyða þeim. Vefur var spunninn og settur fram til að fá þjóðir til að ánetjast þessari kenningu og styðja innrásina.

Það er alveg ljóst að ógnin sem var sett fram var tilbúningur. Við erum öll fegin því að Saddam Hussein var steypt af stóli og að hann bíður nú dóms og vonandi löglegs dómstóls en það þýðir ekki að segja í dag að við megum ekki gleyma okkur í fortíðinni, við eigum að horfa til framtíðar og uppbyggingarstefnunnar þegar í núinu eru enn harðar árásir. Í Írak geisar stríð sem við lögðum blessun okkar yfir og erum beinir þátttakendur að. Það þýðir ekkert að gleyma því, hætta að horfa alltaf um öxl eins og sagt er og horfa til framtíðar. Við eigum að viðurkenna þá staðreynd að við erum þátttakendur í þessu og stuðningsaðilar þess viðbjóðslega stríðs sem þarna geisar og við eigum að vera menn að meiri og biðjast afsökunar á því að hafa látið glepjast. Við eigum að biðja íröksku þjóðina og heim allan afsökunar og skipa okkur í hóp þeirra þjóða sem það hafa gert og séð að sér.

Ég vona að íslenska þjóðin þekki utanríkisstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Við höfum friðarstefnu á stefnuskrá okkar. Við viljum út úr hernaðarbandalagi NATO og stefnum að því og munum stuðla að því ef við fáum mátt til.

Hvaða ógn ætti svo sem að geta steðjað að íslensku þjóðinni, hvað ógn réttlætir hersetu hér á landi? Þegar ríkisstjórn Íslands og þingið tóku þá ákvörðun að Ísland gengi í NATO voru hér aðrar aðstæður uppi þó að ég sé ekki að réttlæta þær aðstæður eða það að við höfum gengið í NATO. Í dag eru aðstæður breyttar og sú ógn sem helst mundi beinast að íslensku þjóðinni er þá, eins og hjá öðrum þjóðum, hryðjuverkaógnin. Með því að setja okkur á lista hinna staðföstu þjóða höfum við frekar aukið á þá ógn en hitt og verðum að sætta okkur við að sitja við sama borð og Danir sem hafa fengið beina ábendingu um að þeir gætu orðið skotmark hryðjuverka vegna stuðnings við stefnu Bandaríkjanna.

Ef við horfum aðeins bak við tjöldin, og það held ég að verði gert í nánustu framtíð, munu fleiri þættir koma í ljós sem skýra hvað stjórnaði því að farið var í þetta innrásarstríð, innrás gerð í Írak. Ég trúi að það verði ljóst að miklir hagsmunir stórfyrirtækja liggja þar að baki, sérstaklega stórfyrirtækjanna í Bandaríkjunum. Þegar allt verður krufið til mergjar eru það þeir hagsmunir sem hafa ráðið ferð og stjórnað bæði stjórnmálamönnum og ákvörðunum hvað varðaði innrásina.

Við Íslendingar höfum fram til þessa talið okkur til friðelskandi þjóða. Við höfum ekki íslenskan her, við höfum viljað styðja við friðargæslustörf og friðarstörf almennt. Við höfum viljað efla þróunarstarf og stuðla að sjálfbærri þróun þróunarlandanna. Núna erum við þátttakendur í ólöglegri innrás í Írak. Íslenskir friðargæslumenn hafa í dag réttarstöðu hermanna NATO og þeir eru því miður skotmörk sem hermenn en ekki sem friðargæslumenn, eins og við töldum að þeir væru.

Styrjaldir bitna harðast á konum, börnum og óbreyttum borgurum. Vopnaðir hermenn eru sannarlega skotmörk og falla í átökum en fjöldi þeirra er ekki nema brot af fjölda fallinna. Svo er það um stríðin í Írak, Afganistan, Palestínu og Ísrael.

Sú frétt hefur borist að sterkur leiðtogi Palestínu sé nú látinn og ég vil nota þetta tækifæri til að votta palestínsku þjóðinni samúð og von um farsæla lausn við stjórn landsins og við að ná árangri um sjálfstæði Palestínu undir betri kringumstæðum en nú steðja að palestínsku þjóðinni.

Hvað varðar umsókn Íslands að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna er margt um hana að segja. Smáþjóðir eins og Ísland hafa átt sæti í öryggisráðinu og nú teljum við komið að okkur að sækja um þátttöku. Ef við teljum það í raun forsvaranlegt að leggja út í þann mikla kostnað sem barátta um sæti í öryggisráðinu kostar þjóðina verðum við að stefna að því að vera þar sem sjálfstæð smáþjóð svo að rödd okkar verði trúverðug. Því tel ég að með því að setja okkur á lista hinna staðföstu þjóða hafi dregið mjög úr trúverðugleika okkar sem fulltrúa í öryggisráðið, ég tala nú ekki um ef við höldum áfram að styðja svo gagnrýnislaust stefnu Bandaríkjastjórnar sem hæstv. utanríkisráðherra gerði í ræðu sinni. Hann lét jafnvel að því liggja að gagnrýnisraddir Evrópuþjóða og fleiri gagnvart Bandaríkjamönnum og utanríkisstefnu þeirra væru allt að því ámælisverðar.

Það væri áhugavert að tala svolítið um Evrópusambandið, Schengen, Norðurlandasambandið, skýrslu Norðurlandaráðs o.fl. (Forseti hringir.) en eins og ég sagði hér í upphafi máls míns er þessi tími mjög knappur og margt verður að bíða betri tíma.