131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[11:09]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi lýsa ánægju minni með hvað hv. þm. Össur Skarphéðinsson les heimasíðu mína með mikilli athygli. En það er rétt, hann kom inn á afleiðingar verkfalls sem ég hef tíundað bæði í umræðu og í skrifum og ég stend fullkomlega við þau skrif mín. Það efast enginn um afleiðingar þessa verkfalls. En hvað er hægt að gera í stöðunni?

Ég sagði t.d. í máli mínu á þingi að lagasetning væri algert neyðarúrræði. Er ekki komin upp sú staða að neyð er í þjóðfélaginu? Það er a.m.k. álit mitt. Ég held að ef við berum saman hugsanlegar afleiðingar þessarar lagasetningar og hvaða áhrif verkfallið hefur á börnin í landinu þá tel ég að við séum að gera rétt. Við getum ekki horft upp á börnin ganga um og vera án þess að geta farið í skóla. Lögum samkvæmt ber þeim að vera í skólum og ég vil ítreka það að að baki þessari lagasetningu liggur gríðarlega erfið ákvörðun. Það er ekki gaman fyrir okkur að taka þátt í að setja slík lög en það er enginn góður kostur í stöðunni. Ég held að við verðum að horfast í augu við t.d. það sem umboðsmaður barna hefur lýst yfir, þ.e. þungum áhyggjum af stöðu mála og horfum í deilunni og ég held að við getum ekki horft fram hjá þessum óskum lengur.