131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[11:53]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var hjartnæm ræða hjá hæstv. ráðherra. Hún býður öllum að borðinu til þess að útdeila þeim verði sem þar er til ráðstöfunar. Það er í fyrsta skipti sem hún segir þetta. Hæstv. ráðherra hefur hingað til talað niður til kennara, talað með þeim hætti að það eigi ekki að setja meiri peninga í að reyna að leysa þessa deilu. Nú kemur hún allt í einu, þegar allt er í hnút, auðmjúk, og vill semja. Hún vildi það ekki fyrr en núna þegar verið er að leysa þetta með lögum.

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Stendur hún á þeim ummælum sem hún viðhafði í sjónvarpi í gær, að ekki ætti að greiða grunnskólakennurum hið sama og framhaldsskólakennurum? Er hún þeirrar skoðunar? Hún sagði að staða þeirra væri svo ólík að það væri ekki hægt.

Í öðru lagi: Er hún enn þeirrar skoðunar sem hún var á þriðjudaginn, að reynsla af lagasetningu væri slæm, leysti engan vanda og skyti honum einungis á frest?