131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:08]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef aldrei sagt að grunnskólakennarar eigi að hafa lægri laun en framhaldsskólakennarar. Það sem skiptir máli er að við reynum að koma okkur saman um að hverfa frá þeirri samningatækni sem verið hefur fram til þessa, sem hefur leitt til þess að deiluaðilar ná ekki saman. Málið er í hnút, verkfall hefur staðið yfir í sjö vikur og einmitt þetta verðum við að koma í veg fyrir í framtíðinni. Við verðum annars vegar að tryggja kennurum það góð laun að þeir vilji starfa í skólakerfinu, vilji vera í grunnskólanum. Okkur ber skylda til að gera það.

Með þessu er ég auðvitað að segja að við þurfum öll að líta í eigin barm, ég sem aðrir hér inni. Ég vona að það komi allir að því borði. Hins vegar er markmið okkar að sjá ekki aftur fram á verkföll í grunnskólunum. Með þessu er ég ekki að tala um að afnema verkfallsréttinn, síður en svo. Þetta er spurning um samningatækni. Það hlýtur að vera eitthvað að hjá okkur fyrst nágrannaþjóðir okkar, sem við viljum bera okkur saman við, lenda ekki í stöðugum verkföllum í skólakerfinu. Við hljótum að geta lært af reynslu einhverra annarra með það í huga að það verði börnum okkar til góða.