131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:21]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli mínu áðan eru fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga stöðugt til umfjöllunar. Nú eftir hádegi í dag munu fulltrúar ríkis og sveitarfélaga koma saman til að ræða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga í samræmi við þá yfirlýsingu sem ég, fjármálaráðherra og formaður Sambands sveitarfélaga undirrituðum í september síðastliðnum.

Hv. þingmaður gerir að umfjöllunarefni breytingar á skattalagaumhverfinu með tilliti til einkahlutafélaga. Mér vitanlega hefur ekki annað mat farið fram á kostnaðinum af því fyrir sveitarfélögin en það sem sveitarfélögin hafa lagt til grundvallar. Þetta er eitt af þeim umræðuefnum sem eru til umfjöllunar milli ríkis og sveitarfélaga og verður eflaust áfram, sem og mörg önnur sem hv. þingmaður þekkir.