131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

295. mál
[15:26]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

(Forseti (GÁS): Það er óttalegur kliður í salnum. Ég bið hv. þingmenn að sýna stillingu.)

Frumvarp um sama efni var lagt fram á 130. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarp þetta er lagt fram að nýju og er efnislega nánast óbreytt. Á 130. löggjafarþingi var jafnframt lagt fram af hálfu forsætisráðherra frumvarp til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum og var það samþykkt á Alþingi, sbr. lög nr. 47/2004.

Nauðsyn er að tryggja verndun vatnasviðs Þingvallavatns og vatnsins sjálfs en vatnasvið þess er stærsta grunnvatnsauðlind á Íslandi í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið og því er vernd þessarar auðlindar gegn mengun eða annarri ógn afar mikilvæg fyrir framtíðarvatnsnot og vatnsnýtingu þjóðarinnar.

Hér á landi hafa ekki verið sett almenn lög um verndun grunnvatns og annars nytjavatns. Með þessu frumvarpi er lagt til að kveða á um verndun lífríkis Þingvallavatns og vatnasviðs þess í sérstökum lögum en í frumvarpinu er lagt til að allt svæðið frá vatnaskilum í Hengli inn í Langjökul verði sérstakt vatnsverndarsvæði. Fellur þannig Þingvallavatn og mestur hluti vatnasviðs þess saman í órofa heild með hinum menningarlegu og náttúrufræðilegu minjum.

Í 2. gr. frumvarpsins eru mörk vatnsverndarsvæðisins tilgreind nákvæmlega, samanber fylgiskjal með frumvarpinu, en þau eru dregin með hliðsjón af niðurstöðum rannsókna á rennsli grunnvatns Þingvallavatns og með það í huga að tryggja einnig verndun Þingvallavatns í heild.

Frumvarpið var samið undir forsjá Þingvallanefndar og er með því og lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum leitast við að móta verndarstefnu á framangreindu svæði til frambúðar. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er ekki hluti af vatnsverndarsvæðinu en samkvæmt lögum um þjóðgarðinn er Þingvallanefnd ætlað að tryggja verndun vatns, þar á meðal Þingvallavatns, innan þjóðgarðsins og á það að tryggja að náð verði markmiðum vatnsverndar sem felst í þessu frumvarpi.

Megintilgangur frumvarpsins er að stuðla að verndun lífríkis Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Í frumvarpinu er kveðið á um að óheimilt sé að gera nokkuð það sem getur spillt vatni eða mengað það innan verndarsvæðisins, bæði vatn á yfirborði og grunnvatn, sbr. 3. gr. frumvarpsins.

Í samræmi við það setur ráðherra nánari reglur um framkvæmd vatnsverndarinnar. Í slíkum reglum er m.a. heimilt að kveða á um að jarðrask, bygging mannvirkja og borun eftir heitu vatni, svo dæmi séu tekin, sé háð sérstöku leyfi ráðherra. Þá er jafnframt í frumvarpinu mælt fyrir um verndun á lífríki Þingvallavatns og að þess skuli gætt að raska ekki búsvæðum og hrygningarstöðvum bleikju- og urriðastofna sem nú lifa í vatninu, sbr. 4. gr. frumvarpsins.

Þingvallavatn er sérstakt, m.a. fyrir þær sakir að það er talið eina þekkta vatnið í heiminum þar sem finnast fjögur afbrigði af bleikju. Urriðastofn sem þreifst til langs tíma í Þingvallavatni og Efra-Sogi var einnig sérstakur. Til að tryggja að búsvæðum og hrygningarstöðvum þessara stofna verði ekki raskað skiptir miklu að vatnshæð í vatninu sé haldið stöðugri og að gát sé höfð á því hvaða efni kunna að berast í vatnið. Því er lagt til að umhverfisráðherra setji reglur um framkvæmd vatnsverndarinnar, m.a. um breytingar á vatnshæð, takmarkanir á losun úrgangsefna og um frárennsli og fráveitur í vatnið. Þá er lagt til að óheimilt verði að stunda fiskirækt eða fiskeldi í eða við Þingvallavatn nema með leyfi ráðherra vegna þeirrar sérstöku mengunar- og sjúkdómahættu sem getur stafað af fiskirækt og fiskeldi.

Herra forseti. Ég hef rakið hér efni frumvarpsins í megindráttum og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhverfisnefnd.