131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

295. mál
[16:01]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þessar ágætu umræður sem hafa farið hérna fram um þetta mikilvæga mál. Mér þykir ánægjulegt að heyra að þingmenn séu ánægðir með það og taki undir nauðsyn þess að setja lög af þessu tagi.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi sérstaklega reglugerðarsetninguna sem er samkvæmt bæði 3. og 4. gr. og spurði hvort til greina kæmi að banna umferð olíubíla. Ég bendi á að í 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. segir, með leyfi forseta:

„Innan verndarsvæðisins er óheimilt að gera nokkuð það sem getur spillt vatni eða mengað það, bæði yfirborðsvatn og grunnvatn.“

Síðan segir í greinargerð með 3. gr. alveg sérstaklega:

„Þá getur ráðherra sett reglur um flutning og meðferð mengandi efna á verndarsvæðinu, olíu og leysiefna.“

Það er alveg ljóst að það á að vera hægt að bregðast við í þessum efnum, setja reglur um flutning og meðferð mengandi efna á verndarsvæðinu, og þá bæði olíu og leysiefna.

Hvað snertir greinargerð dr. Péturs M. Jónassonar, sem er fylgiskjal með frumvarpinu, er um hana að segja að hún stendur algjörlega sjálfstæð sem höfundarverk hans. Dr. Pétur M. Jónasson ber að sjálfsögðu ábyrgð á henni sem vísindamaður og það er fráleitt að halda því fram að allt sem í henni stendur séu skoðanir umhverfisráðuneytisins. Þar er ýmislegt umdeilanlegt en hins vegar er þessi greinargerð hans, sem er fylgiskjal, mjög merkileg. Þarna er um að ræða vísindamann sem þekkir Þingvallavatnið manna best, vatnið og lífríki þess og er sérfræðingur í vatninu.

Það má líka minna á að Þingvallanefndin ákvað á sínum tíma að hafa greinargerð dr. Péturs M. Jónassonar sem fylgiskjal með frumvarpinu. (Gripið fram í.) Þannig er þetta tilkomið. Ég tel mjög upplýsandi að hafa greinargerð dr. Péturs M. Jónassonar með frumvarpinu til þess að fræðast af því sem þar er sett fram þó að eitthvað af því geti verið umdeilanlegt.

Mér fannst líka mjög skemmtilegt að heyra hugleiðingar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um urriðann. Kannski þekkja ekki margir stóra urriðann í Þingvallavatninu betur en hann, hann er að sjálfsögðu sérfræðingur í þeim efnum. Um daginn átti ég leið á Þingvelli og þegar ég var að fara yfir brúna fótgangandi sá ég þá nokkra þar, þá stóru. Vonandi hefur mönnum tekist að bæta lífsskilyrði urriðans í vatninu með því að hafa sveiflurnar minni en áður. Síðustu árin hefur mér skilist að sveiflurnar á vatnsborðinu séu undir 20 sentímetrum og það er auðvitað gott. Að sjálfsögðu er það þá líka framtíðarmál hvort menn vilja opna honum leið niður.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni.