131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

295. mál
[16:06]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að nokkurs misskilnings gæti þegar menn tala um að búið sé að endurreisa þennan urriðastofn í Þingvallavatni. Ég hygg að stór partur af þeim stóru urriðum sem nú finnast í vatninu — hv. þm. Össur Skarphéðinsson veit eflaust allt um það — eigi upphaf sitt í seiðasleppingum. Hann hefur ekki náttúrulegt upphaf í vatninu með þeim hætti sem hann ætti að gera ef hann væri, ef svo má segja, klakinn út og alinn upp í Efra-Sogi nema þá sá urriði sem á ættir að rekja til Öxarár.

Greinilega kemur fram í greinargerð dr. Péturs M. Jónassonar á bls. 12 að þessi stífla milli Kaldárhöfða og Dráttarhlíðar frá árinu 1959 hefur haft mjög alvarleg áhrif því að árfarvegurinn í Efra-Sogi þurrkaðist nánast alveg upp. Mýið hvarf og urriðinn var einmitt sviptur helstu hrygningarstöðvum sínum sem þýddi gríðarlegt inngrip í náttúruna á þessu svæði. Mjög falleg og merkileg náttúruperla var hreinlega eyðilögð, eins og m.a. kemur fram í ágætum bókum um Þingvallavatn og lífríki þess sem hafa verið gefnar út á undanförnum árum.

Mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort hún væri reiðubúin til að beita sér fyrir því að þessi stífla yrði fjarlægð í framtíðinni.