131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[17:58]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um þetta mál, um rannsókn á þróun valds og lýðræðis. Ég stend einungis upp til að þakka þær góðu undirtektir sem málið hefur fengið. Það er ástæða til að fagna því að þingmenn úr nær öllum flokkum hafa tekið til máls og tjáð skoðanir sínar á málinu, m.a. hafa þingmenn úr báðum stjórnarflokkunum tekið undir þetta mál og lýst yfir stuðningi við það. Það ber vissulega að þakka.

Það kom réttilega fram hjá hv. 6. þm. Reykv. s., að það er sameiginlegt hagsmunamál allra flokka að ráðast í slíka rannsókn á þróun valds og lýðræðis líkt og gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndunum. Það er full ástæða til, miðað við þróun mála á umliðnum árum og áratugum, að við vindum okkur í að skoða stoðir og grundvöll lýðræðisins, hvort orðið hafi tilfærsla á valdi og hvaða áhrif það hafi haft á samfélagsþróunina í heild sinni. Mér finnst raunar að þjóðþinginu beri skylda til að gera það.

Ég hefði talið ástæðu til að rannsókn á þróun valds og lýðræðis hefði farið fram fyrir löngu og væri m.a. grundvöllur að þeirri endurskoðun sem fram á að fara á stjórnarskránni. Ég tel að það væri mikilvægt fyrir þá endurskoðun sem þarf að fara fram á stjórnarskránni að slík rannsókn lægi fyrir. En ég geri mér grein fyrir að rannsóknin gæti tekið langan tíma. Samkvæmt tillögu okkar er henni ætlaður tími til ársins 2008. Það má vel vera að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar skoði hvort stytta eigi þann tíma. Í tillögugreininni er þó gert ráð fyrir að nefndin skili áfangaskýrslu eftir því sem verkinu miðar áfram og vel má vera að hægt yrði að fá slíkar áfangaskýrslur fyrr.

Menn hafa dvalið við ýmsa þá þætti sem þessi umfangsmikla tillaga lýtur að, m.a. fjármál stjórnmálaflokkanna. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það. Ég hef á einum átta þingum flutt þingmál um að fjármál stjórnmálaflokkanna verði gegnsæ og stjórnmálaflokkunum verði gert skylt að birta fjármál sín opinberlega. Á umliðnum vikum hefur það fengið aukið vægi. Þingmenn eru smám saman að færast nær í þessu efni, að ákveðin lög verði að gilda um gegnsæi í fjármálum stjórnmálaflokka. Það væri mjög gott innlegg í þá umræðu ef þeirri skýrslu yrði hraðað sem ég hef beitt mér fyrir að verði lögð fram hið fyrsta á þessu þingi. Ég minni í því sambandi á að sama skýrslubeiðni var lögð fyrir á síðasta þingi en hæstv. þáverandi forsætisráðherra treysti sér ekki til að svara henni þá. Hann sagði að starfað yrði að þeirri skýrslubeiðni og væntanlega hefur gefist tími til að vinna vel að þeirri skýrslu sem vonandi verður lögð fram fljótlega.

Ég ætla ekki að fara í einstaka þætti þessa máls. Menn hafa dvalist mjög við embættismannavaldið, sem ég held að full ástæða sé til að skoða. Menn hafa nefnt valdið á fjármálamarkaðnum og vald fjölmiðla. Ég vil í því sambandi benda á, af því að hv. 6. þm. Suðurk. nefndi að þessi umfangsmikla úttekt þyrfti líka að ná til fjölmiðla, að það er gert ráð fyrir því í tillögugreininni að skoðað verði hvaða áhrif fjölmiðlar hafa haft á þróun stjórnmála og samfélagsins í heild. Þau áhrif eru vissulega gífurlega mikil og í raun er varla hægt að fara í rannsókn á þróun valds og lýðræðis nema að nefna það.

Mér er mjög umhugað um að valdið á fjármálamarkaðnum verði skoðað rækilega. Fjárfestingar nokkurra valdablokka í atvinnulífi og á fjármagnsmarkaði eru af stærðargráðu sem fáir hefðu getað gert sér í hugarlund fyrir aðeins fáum árum. Ég vil taka fram að sú þróun hefur að því leyti verið jákvæð að dregið hefur úr óeðlilegu samblandi stjórnmála og atvinnulífs, með minni þátttöku ríkisins í atvinnulífinu. Það er líka jákvæð þróun að valdablokkir í atvinnu- og viðskiptalífinu eru fleiri en áður voru, sem ætti að tryggja meiri samkeppni þótt við höfum séð á síðustu dögum að töluvert vantar upp á að samkeppni sé næg í ýmsum atvinnugreinum í þjóðfélaginu.

Þótt það sé umfangsmikið mál legg ég gífurlega áherslu á að í þessari rannsókn verði dregið fram hvort arðsemin af þeirri miklu samþjöppun eigna og fjármagns sem átt hefur sér stað á síðustu árum í viðskiptalífinu skili sér svo ásættanlegt sé til þjóðarbúsins eða hvort áhrifin séu fyrst og fremst gífurleg eigna- og fjármagnstilfærsla til nokkurra valdablokka. Það þarf að meta hvort söfnun auðs og valds á fárra manna hendur hefur aukið misréttið í kjörum fólks, eins og víða virðist hafa gerst, og gliðnað á milli eigna- og tekjuskiptingar í þjóðfélaginu með aukinni stéttaskiptingu. Ég hafði ekki tíma til að koma inn á þetta í framsöguræðu minni áðan.

Ég vil í lokin draga fram að ég tel, af því að það hefur ekki mikið verið rætt, það veigamikinn þátt í þeirri rannsókn á þróun valds og lýðræðis sem hér er lagt til að gera að metin verði samfélagsleg áhrif af þeim breytingum sem hafa vissulega orðið á þróun valds og lýðræðis í þjóðfélaginu.

Virðulegi forseti. Hér þurfa fleiri þingmál að komast að. Ég læt því máli mínu lokið en ítreka þakklæti mitt til þingmanna frá flestum stjórnmálaflokkum sem hér hafa talað. Umræðan gefur manni vonir um að góð samstaða gæti náðst um þetta þingmál í allsherjarnefnd og hún yrði hugsanlega samþykkt á þessu þingi þannig að við getum undið okkur í svo viðamikla rannsókn sem yrði samkvæmt tillögunni á vettvangi háskólasamfélagsins.