131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Viðskiptahættir tryggingafélaga og banka.

314. mál
[12:32]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í kjölfar þeirrar miklu umræðu sem orðið hefur um niðurstöðu Samkeppnisstofnunar og verðsamráð olíufélaganna, þar sem olíufélögin féflettu almenning um marga milljarða kr. með verðsamráði, hafa ýmsir leitt hugann að því hvort sambærilegir ólöglegir viðskiptahættir tíðkist víðar í atvinnu- og fjármálalífi. Það er út af fyrir sig ekki ný umræða því í gegnum árin hefur oftsinnis verið rætt um þessi mál á þingi og að full ástæða væri til að skoða samkeppnishætti í ýmsum atvinnugreinum og hafa bankar, olíu- og tryggingafélög og flutningastarfsemi oft verið nefnd í því sambandi. Í gegnum árin hefur líka sífellt verið kallað eftir því á Alþingi að Samkeppnisstofnun yrði gert kleift að standa undir sívaxandi verkefnum og að hún gæti ráðist að eigin frumkvæði í sambærilega rannsókn og gerð var með olíufélögin.

Á árinu 1997 var m.a. kallað eftir því við viðskiptaráðherra að gerð yrði athugun á viðskipta- og samkeppnisháttum í banka-, olíu-, trygginga- og flutningsviðskiptum. Sérstök áhersla var lögð á að skoðað yrði hvort haft væri samráð um verð vöru og þjónustu og hvernig hagsmunatengslum og valdasamþjöppun innan þessara atvinnugreina væri háttað. Ítrekað var í skýrslunni að skoðað yrði hvort fyrirtæki í þessum greinum gæti í krafti markaðsstöðu eða verðsamráðs samið um skiptingu markaða eða verðlagningu á vöru og þjónustu.

Nú er komið á daginn að það hefði sparað neytendum einhverja milljarða ef ráðist hefði verið í rannsókn á olíufélögunum árið 1997, eins og kallað var eftir, í stað 2001. Mín skoðun er sú að full ástæða sé til að fara í sambærilega skoðun á viðskiptaháttum banka og tryggingafélaga og nú hefur farið fram á olíufélögunum. Því hefur lengi verið haldið fram að verðsamráð viðgangist innan tryggingafélaganna og full ástæða er líka til að skoða bankana. Bendi ég t.d. á að með ólíkindum er hve gjaldskrá bankanna og þjónustugjöld eru lík á mörgum sviðum og full ástæða til að kanna viðskiptahætti innan þeirra einnig. Ég bendi á að í athugun á tryggingafélögunum fyrir nokkru síðan kom fram að á vettvangi Sambands ísl. tryggingafélaga hefði átt sér stað samstarf sem bryti í bága við samkeppnislög. Ég spyr um samstarfsvettvang bankanna, sem eru samtök banka og verðbréfasjóða, hvort ekki sé ástæða til að skoða nánar hvort samráð á þeim vettvangi sé þess eðlis að það brjóti í bága við samkeppnislög.

Hæstv. viðskiptaráðherra fer með framkvæmd samkeppnislaga en í umboði hennar fer samkeppnisráð, Samkeppnisstofnun og áfrýjunarnefnd samkeppnismála með stjórnsýsluna á því sviði sem lögin ná til. Hæstv. ráðherra hefur því fulla heimild til að leita álits Samkeppnisstofnunar á því hvort ástæða sé til að kanna hvort verðsamráð eða ólöglegir viðskiptahættir tíðkist hjá tryggingafélögum eða í bankakerfinu. Ráðherrann upplýsti sjálf nú nýverið að hún hafi leitað eftir því við Samkeppnisstofnun að þeir skoðuðu olíufélögin og nefndi ártalið 2000 í því sambandi.

Ég sé því ekki annað en að ráðherrann hafi alveg sömu heimild til að leita álits hjá Samkeppnisstofnun um það efni sem hér er spurt um, hvort ekki sé ástæða til að skoða sérstaklega tryggingafélögin og bankakerfið með líkum hætti og gert var við olíufélögin með þeim árangri sem við höfum séð.