131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Viðskiptahættir tryggingafélaga og banka.

314. mál
[12:37]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Svar hæstv. viðskiptaráðherra kemur mér sannarlega á óvart, að ráðherrann sé ekki tilbúin til að fylgja eftir vel heppnaðri rannsókn Samkeppnisstofnunar á olíufélögunum. Það hefur verið upplýst að hæstv. ráðherra skrifaði bréf í því sambandi og beindi sannarlega ákveðnum tilmælum til stofnunarinnar og getur auðvitað gert það við tryggingafélögin einnig. Eins og kunnugt er fyrndist sú rannsókn og stóð í nærri sjö ár á þeirri starfsemi og er full ástæða til að skoða það mál sérstaklega.

Samkeppnisstofnun er ekki fullkomlega óháð stjórnmálamönnum. Hún byggir á þeim fjárveitingum sem hún fær frá hæstv. ráðherra. Á fundi fjárlaganefndar í gær upplýsti Georg Ólafsson, forstjóri stofnunarinnar, að stofnunin þyrfti yfir 100 millj. kr. í aukningu til að geta sinnt verkefnum sínum svo sómasamlegt væri og að Samkeppnisstofnun væri með miklu lægri fjárveitingar en stofnanir eins og Póst- og fjarskiptastofnun og fjármálaeftirlit. Maður hlýtur að spyrja hæstv. ráðherra eftir niðurstöðuna í olíumálinu hvort hún ætli ekki að gera stofnuninni kleift að fara í rannsóknir í öðrum atvinnugreinum eins og tryggingafélögum og bönkum.