131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Atvinnurekstur í smáum fyrirtækjum.

95. mál
[12:43]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Á 128. löggjafarþingi flutti þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Tillagan var endurflutt á 130. löggjafarþingi og afgreidd á Alþingi 16. mars 2004 og samþykkt samhljóða ef minni mitt svíkur ekki.

Tillaga þessi felur í sér að ríkisstjórnin vinni framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og markmið þeirra aðgerða verði að auðvelda mönnum að stofna til atvinnurekstrar, hlúa að nýsköpunar- og þróunarstarfi í smáatvinnurekstri og greiða fyrir vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Síðan skal áætlunin fela í sér sérstaka athugun á ýmsum þáttum sem ástæða er til að ætla að geti verið hamlandi í þessu efni og torveldað mönnum að koma á fót atvinnurekstri eða efla hann, svo sem eins og hvað kostar að stofna til atvinnurekstrarins, hvernig aðgengi smáatvinnurekstrar er að fjármagni, nauðsynlegri fjármálaþjónustu og fleira í þeim dúr. Að lokinni þeirri vinnu skal áætlunin lögð fyrir Alþingi til staðfestingar haustið 2005 og þinginu síðan gerð grein fyrir framvindu mála með skýrslu á tveggja ára fresti.

Hér er verið að taka upp mjög sambærileg vinnubrögð og víða tíðkast í löndunum í kringum okkur þar sem með skipulögðum hætti er unnið að því að hlúa að þessum nýgræðingi í atvinnulífinu. Það byggir á þeirri vitneskju manna, sem er orðin tiltölulega óumdeild, að hrygglengjan í sköpun nýrra starfa og ýmiss konar nýsköpun á sér einmitt stað í smáfyrirtækjum og í vexti lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Í framhaldi af samþykkt Alþingis í marsmánuði sl. þykir mér ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig undirbúningnum miði.

1. Hvernig hefur verið háttað undirbúningi að gerð framkvæmdaáætlunar um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum í framhaldi af ályktun Alþingis þar um hinn 16. mars sl.?

2. Er hafin athugun á þeim þáttum sem tillagan gerir ráð fyrir að verði kannaðir sérstaklega og ef svo er, hvernig er þá að slíku staðið?

3. Er þess að vænta að tímaáætlun um framlagningu málsins haustið 2005 standist?