131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Háhitasvæði við Torfajökul.

122. mál
[13:03]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Svar hæstv. ráðherra var nokkuð í samræmi við það sem ég átti helst von á. Það er auðvitað rétt að þetta svæði er í raun og veru nokkur hitasvæði. Ég man ekki hvort þau eru skilgreind sem fimm eða sex hitasvæði og það má vera að það sé einhver munur á því hversu viðkvæm þau eru.

Ég velti fyrir mér hvar eigi að taka umræðu um það hvort eigi að fara inn á svæðið. Hvar á að taka umræðuna um það hversu fágætt svæðið er og hvort það sé svo fágætt að við hróflum ekkert við því? Þetta er vandinn í hnotskurn, líka varðandi ný lög um umhverfismat, hvar gert er ráð fyrir að þar til bærir aðilar geti heimilað að framkvæmdaaðili fari í umhverfismat, fari inn á svæðið, ýmiss konar rask, vegagerðir og annað það sem getur fylgt með eftir því hvers eðlis svæðið er og eftir að mál hafa farið fram og til baka milli Skipulagsstofnunar og sveitarfélagsins ef það á í hlut. Er hægt að heimila framkvæmd og hvað með stóru orkuframkvæmdirnar sem koma ekki lengur inn á Alþingi? Því spyr ég: Hvar eigum við að taka umræðuna um það hvort okkur finnist eitthvert svæði svo fágætt að við viljum ekki láta hrófla við því, sama hvað rannsóknir segja?

Þetta er vandi Alþingis, tel ég, vegna þess að hjá faghópi 4 sem vann við rammaáætlunina kom fram að virkjun á Torfajökulssvæðinu skæri sig úr með meiri umhverfisáhrif en aðrar jarðvarmavirkjanir. Þar er einmitt talað um fágætisgildi. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé rætt á einhverjum tíma frá því að þessar frumrannsóknir hafa farið í gang og þar til hugsanleg leyfi verða veitt. Viljum við yfirleitt vernda þetta svæði?