131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Tilraunir með vindmyllur.

124. mál
[13:26]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst um virkjanir almennt og það að hægt sé að vera á móti þeim og virkja bara ekkert. Sú er hér stendur var mjög andvíg því að fara í Kárahnjúkavirkjun, og nýjustu upplýsingar um hina ýmsu samninga sýna nú að e.t.v. hefði ekki þurft að fara í þetta ofboðslega verkefni sem Kárahnjúkavirkjunin er. Síðan hef ég fengið að heyra að ég sé á móti virkjunum og á móti álverum. Staðreyndin er sú að ég er ekki á móti álverum. Ég vil hins vegar skoða hvað það kostar að byggja þau, hvaðan þau eigi að fá orkuna og ég hef skoðun á því hvar ég vil að ekki sé virkjað. Hana ætla ég að hafa áfram.

Þá kemur þessi litla, skemmtilega fyrirspurn til iðnaðarráðherra um tilraunir með vindmyllur. Spurt er:

Hvað líður tilraunaverkefni með vindmyllur í Grímsey sem ráðherra boðaði á sínum tíma? Hvaða rannsóknir hafa farið fram? Telur ráðherra að vindmyllur geti orðið kostur í orkuframleiðslu hérlendis?

Ég vona að ég muni rétt að það hafi verið kynnt að uppi væru hugmyndir um að reyna þetta með vindmyllur í Grímsey.

Nú vill svo til að ég var í sumar í Danmörku og heimsótti m.a. fyrirtækið Vesta, sem er leiðandi fyrirtæki í framleiðslu á vindmyllum, fékk mikinn fyrirlestur um hvernig þær hafa reynst og hver orkuframleiðsla er með því að nýta þær. Það er áhugavert en útlendingar telja að Íslendingar þurfi ekki að velta fyrir sér einhverju slíku fyrirbæri af því að Ísland eigi svo mikið af ám og jarðhita til að virkja. Það er ekki fyrr en maður fer að skoða þau mál nánar sem manni verður ljóst, og það er kannski það sem ég mun ræða í næstu fyrirspurn minni, að ekki verður allt virkjað sem hingað til hefur verið haldið fram. Það er alveg ljóst eftir atburði liðinna ára.

Ég hlýt líka að geta þess að Noregur sem er land ekki óáþekkt okkar landi, þ.e. með mikil vatnsföll sem hafa verið virkjuð mikið, hefur sansast á það að maður virkjar ekki hvað sem er og að víðernin eru dýrmæt í sjálfu sér. Þess vegna hafa Norðmenn fallið frá sumum áformuðum virkjunum. Norðmenn settu t.d. upp vindmyllur á eyju rétt fyrir utan Kristianssund og það sem menn kannski óttuðust að gæti verið fylgifiskur slíks, t.d. varðandi fugla- og dýralíf, reyndist alls ekki vera nein ógnun, þvert á móti hefur þetta bara reynst mjög gott. Þarna fæst raforka fyrir allt Kristianssundssvæðið þar sem búa eitthvað um 25 þús. íbúar. Þeir fá alla raforku frá þessum vindmyllum.

Þess vegna væri svo áhugavert ef þessi tilraun sem ráðherrann talaði um á sínum tíma færi fram þannig að einn góðan veðurdag þegar við erum komin út úr því að ráðast á hvað sem er og virkja það getum við líka skoðað það að nota svona kost ef hann reynist hagkvæmur.