131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Tilraunir með vindmyllur.

124. mál
[13:35]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og held að við eigum að gaumgæfa til hlítar hvaða kostir gefast í þessum efnum. Nægur er vindurinn hér á landi, ekki er það vandamálið.

Það er hins vegar einn þáttur þessa máls sem ég hef verið dálítið hugsi yfir, ekki síst þegar maður ekur um landsvæði erlendis þar sem vindmyllur eru mjög víða. Sín er hver mengunin og þó að orka sem frá vindmyllum kemur sé vistvæn er sjónmengunin náttúrlega gífurleg af vindmyllum, sérstaklega í þéttbýli og í dreifbýli reyndar líka. Náttúruspjöll eru af ýmsum toga og ég sé ekki fyrir mér að Ísland verði vindmylluvætt, ekki síst í ljósi umhverfisverndar.