131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Langtímaatvinnuleysi.

80. mál
[13:52]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin um leið og ég hlýt að lýsa miklum áhyggjum yfir þeim upplýsingum sem þar koma fram. Það er grafalvarlegt að langtímaatvinnuleysi, t.d. á þann mælikvarða að skoða hve margir hafa verið án atvinnu í heilt ár eða lengur, er ískyggilegt. Þar nefndi hæstv. ráðherra töluna rúmlega 16 af hundraði sem þýðir að 600–800 einstaklingar hafa samfellt verið utan vinnumarkaðarins í ár eða lengur. Í þessum hópi er ungt fólk, að vísu ekki mjög margt, en þó eru um 10% þeirra sem teljast langtímaatvinnulausir fólk á aldrinum 16–24 ára. Hvað segir það okkur ef sú staða er virkilega að verða uppi að tugir eða hundruð ungmenna á þessum aldri séu án atvinnu, ekki í námi og ekki heldur á vinnumarkaði, í ár eða lengur? Það eru grafalvarleg skilaboð sem við fáum þar.

Úrræðin sem þarna voru nefnd og eru góðra gjalda verð ber að sjálfsögðu öll að nýta. Við getum ýmislegt lært af öðrum þjóðum sem lengur en við og í miklu stærri og alvarlegri mæli hafa glímt við þennan vágest, atvinnuleysið. Ég tel sjálfur að átaksverkefni hins opinbera, sveitarfélaga og ríkis, geti í samstarfi við aðila á vinnumarkaði gefið mjög góða raun. Ég veit að þar sem vel hefur verið að slíku staðið hefur það gefið mjög góða raun þegar kerfisbundið hefur verið farið yfir atvinnuleysisskrána og reynt að finna úrræði á persónulegum grundvelli fyrir hvern og einn, þegar m.a. hefur verið hægt að bjóða upp á fjölbreytt störf í átaksverkefnum.