131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Styrking efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

281. mál
[18:53]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í svari hæstv. dómsmálaráðherra til mín nýlega kom fram að vegna manneklu hefði efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra ekki tök á að hefja rannsókn mála að eigin frumkvæði og efnahagsbrotadeildin hefði aðeins mannafla til að rannsaka og taka til meðferðar mál sem kærð eru til hennar. Veruleg fjölgun hefur líka orðið á kærumálum ásamt rannsóknaraðstoð við önnur embætti sem og aukning á tilkynningum um ætlað peningaþvætti. Samtals var fjöldi þessara mála 202 á árinu 2001 en voru 387 á árinu 2003 eða fjölgun um nálægt 90%. Á þessum tíma hefur starfsmönnum efnahagsbrotadeildar þó aðeins fjölgað úr 10 í 14. Jafnframt kom fram að á síðustu þremur árum hafi dómstólum í sex tilvikum þótt ástæða til að taka tillit til þess í dómum sínum að dráttur hefði orðið á rannsókn mála hjá efnahagsbrotadeildinni sem hinn ákærði eða dæmdi bar ekki ábyrgð á og því voru refsingar mildaðar.

Til rannsóknar er nú hjá efnahagsbrotadeildinni þáttur stjórnenda olíufélaganna í verðsamráði og broti á samkeppnislögum og hugsanlega refsiábyrgð þeirra. Þetta samráð hefur eins og við þekkjum kostað samfélagið tugi milljarða króna og komið hart niður á neytendum. Nauðsynlegt er að fá sem fyrst niðurstöðu í rannsóknina sem hófst fyrir um ári síðan, bæði til að eyða allri óvissu í málinu sem er til hagsbóta bæði fyrir stjórnendur olíufélaganna og samfélagið í heild að fá úr því máli skorið, og einnig eru uppi vangaveltur um hvort um geti verið að ræða fyrningu saka. Stjórnvöldum ber skylda til að búa þannig að eftirlitsstofnunum og lögregluyfirvöldum að ekki komi til fyrningar saka eins og t.d. gerðist í máli tryggingafélaganna. Slíkt grefur undan réttarkerfinu, enda er nauðsynlegt í siðmenntuðu samfélagi að allir séu ábyrgir gerða sinna.

Nú liggur fyrir að á fjárlögum þessa árs var veitt 15 millj. kr. tímabundið framlag til að fjölga störfum við efnahagsbrotadeildina en það var ekki bara vegna meintra samkeppnislagabrota heldur var einnig bent á að það væri vegna fjölgunar mála tengdum peningaþvætti, fíkniefnabrotum og annarra umfangsmikilla sakamála. Full ástæða er til að ætla að frekara fjármagn þurfi til að hægt sé að setja fullan hraða á þessa rannsókn og henni sé hægt að ljúka á sem skemmsta mögulegum tíma.

Því hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að leggja fyrir hæstv. dómsmálaráðherra fyrirspurn um hvort ráðherrann telji rétt að efla efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra í ljósi þess að deildin hefur ekki nægan mannafla til að taka upp mál að eigin frumkvæði, og í öðru lagi hvort ráðherrann sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að deildin fái meira fjármagn og mannafla svo að flýta megi rannsókn hennar varðandi þátt einstaklinga í verðsamráði olíufélaganna.