131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:21]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Allir þeir sem hafa verið vakandi hin síðari ár vita að grunnskólakennarar á Íslandi hafa ekki hækkað umfram aðrar stéttir, þvert á móti, enda er hér um sjálfsagða leiðréttingu að ræða. Þegar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson spyr hverjir eiga þá ekki að fá meira, er rétt að vekja athygli hans á því að útgjöld okkar til menntamála eru minni en í nágrannalöndunum, í samanburðarlöndunum, m.a. vegna þess að við höfum ekki gert nægilega vel við þessar stéttir. Það er fásinna að sá 750 millj. kr. kostnaður sem kann að felast árlega í umframhækkunum til kennara ógni stöðugleikanum, það eru þeir nærri 300 milljarðar sem hér eru, þar sem útgjaldaaukningin til utanríkismála ein sér er einn milljarður milli ára, sem er meiri en hækkunin til allra kennara á Íslandi umfram almenna launaþróun. Það sem ógnar stöðugleikanum er aðhaldsleysi í ríkisfjármálum, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, og t.d. sá hroki hv. þingmanns að koma hér og moka hundruðum milljóna í aukin lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra með annarri hendinni, en berja í pontuna yfir ábyrgðarleysi og óráðsíu lífeyrisskuldbindinga ríkisins með hinni hendinni.

(Forseti (JBjart): Forseti minnir hv. þingmenn á að aðgæta ræðutímann.)