131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[15:11]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hélt mikla dómadagsræðu áðan og hálfskondið að sjá þegar fylgihnöttur hans skaust upp í andsvar til að lofa hann og mæra og herða frekar á þeim hótunum sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson setti fram, því það var með engu móti hægt að skilja ræðu hans öðruvísi en svo að verið væri að hóta sveitarfélögunum, þau skyldu heldur betur fá að kenna til tevatnsins því sá samningur sem þau höfðu gert mundi ekki leiða til þess að það kæmi einn einasti eyrir frá ríkinu til sveitarfélaganna.

Undir þetta tók hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Hótunin sem í þessu birtist gagnvart íbúum sveitarfélaganna var sú að jafnvel þó sveitarstjórnir þyrftu að ráðast í að skera niður þjónustu sem þau voru beinlínis hvött til af hálfu hv. þm. tveggja skyldi ekki koma eyrir frá ríkinu til sveitarfélaganna. Þó blasir við, frú forseti, að enn er óskipt svo sanngjarnt sé tekjum milli ríkis og sveitarfélaga. Enn er ólokið störfum sérstakrar nefndar sem átti að véla um þau mál og enn hefur ekkert gerst utan að Sjálfstæðisflokkurinn misnotaði flokksmann sinn í forustu Sambands íslenskra sveitarfélaga, borgarfulltrúan Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, til að skrifa undir eitthvert plagg sem ríkisstjórnin gat veifað í aðdraganda samninganna sem leiddu til þessarar heiftúðugu kjaradeilu við kennara og sagt: Ja, það eru samningaviðræður í gangi.

Ég segi misnota, vegna þess að ég tel að sá ágæti maður hafi verið misnotaður af hálfu ríkisstjórnarinnar og flokksvaldi hafi verið misbeitt til að búa til stöðu sem fríaði ríkisvaldið ábyrgð þegar eðlilega var verið að sækja á það af hálfu sveitarfélaganna.

Í ræðunni sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson flutti áðan voru í reynd þrír meginþættir.

Í fyrsta lagi hótunin um að sveitarfélögin skyldu ekki fá krónu til viðbótar frá ríkisvaldinu.

Í öðru lagi hótunin um að opinberir starfsmenn skyldu ekki fá neina hækkun í þeim samningum sem fram undan eru vegna þess að það mundi leiða til kollsteypu.

Í þriðja lagi fullyrðingin sem var rauður þráður í gegnum ræðu hv. þm., að samningurinn sem sveitarfélögin gerðu við grunnskólakennara yrði valdur að ástandi sem hugsanlega leiddi til kollsteypu. Hv. þm. var í reynd að nota samninginn og grunnskólakennara til að breiða yfir slóðahátt og aumingjaskap eigin ríkisstjórnar í fjármálum sem nú þegar hefur leitt til þess að þensla ríkir sem er langt umfram það sem menn væntu og það sem kalla má heilbrigt fyrir samfélagið.

Ég held að þarft sé, frú forseti, að fara aðeins yfir það með hvaða hætti sú staða hefur komið upp. Nú skal það að vísu viðurkennt að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur endrum og sinnum komið upp og haldið ræður sem hafa verið snöggtum sanngjarnari og skárri en sú ræða sem hann flutti áðan. Hv. þm. hefur oftar en ekki verið í hlutverki Jóhannesar skírara. Hann hefur verið eins og hrópandinn í eyðimörkinni, hrópað um það sem betur mætti fara hjá ríkisstjórninni, en enginn hefur hlustað á hann. Það hefur enginn lausnari fæðst til að hrinda í framkvæmd þeim boðskap sem hv. þm. hefur talað um. Hver hefur boðskapurinn verið? Aðhald í ríkisfjármálum.

Illu heilli hefur aðhald þetta aldrei sést. Það þarf ekki formann Samfylkingarinnar eða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til að koma upp og benda á að ríkisstjórninni hafi ekki tekist upp sem skyldi. Það er nóg að fara til þeirra stofnana sem leika á markaði og eru háðar öðrum lögmálum heldur en við sem förum með ríkisfjármálin þurfum að hlíta.

Ég vísa til þess að greiningarstofnanir fjármálafyrirtækja á markaði sem hv. þingmaður hefur stundum glaðst yfir hafa lýst því yfir að í besta falli séu ríkisfjármálin hlutlaus varðandi þensluþróun í samfélaginu. Í versta falli telja þær haldið um ríkisfjármálin með þeim hætti að þau kynnu að hvetja til aukinnar þenslu. Það er auðvitað það sem máli skiptir. Ríkisfjármálunum er ekki beitt í þágu þeirra markmiða sem hv. þingmaður lýsti sem hinum jákvæðustu í rekstri samfélags okkar.

Hvert er þá hlutverk hv. þingmanns í þessu? Hann er varaformaður fjárlaganefndar og þótt hann komi hingað og tali í eigin nafni sem þingmaður þá vitum við að hann hefur verið hugmyndafræðingurinn á bak við ríkisreksturinn og hefur mörgum sinnum bent á ýmsa þætti sem betur mættu fara í rekstri ríkisins. Ég spyr hins vegar, frú forseti: Er Sjálfstæðisflokkurinn hættur að hlusta á hv. þm. Einar Odd Kristjánsson? Mér fannst sem hann hellti úr fötum bölsýni og örvæntingar og ég velti því fyrir mér hvernig á því stæði. Er það vegna þess að hann hafi komið að luktum dyrum í Sjálfstæðisflokknum? Eru menn hættir að hlusta á varnaðarorð hans þar? Er hann að reyna að finna önnur sektarlömb í ræðum sínum utan þeirrar hjarðar þar sem hann veit að sektarlömbin hlaupa saman, þ.e. hæstv. ráðherrar, hans eigin ráðherrar? Hann er að reyna að búa til sektarlömb úr grunnskólakennurum, úr opinberum starfsmönnum og líka ónafngreindum þingmönnum hér í þessum sölum sem hann segir að taki undir með grunnskólakennurum.

Auðvitað fagna ég þeim kjarabótum sem grunnskólakennarar fengu með samningum sínum í gær. Hvers vegna fagna ég þeim? Vegna þess að þeir áttu þær skilið. En það sem skiptir mestu máli er að þetta voru frjálsir samningar. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson getur ekki hlaupið eins og griðungur um foraðið og kvartað undan niðurstöðu frjálsra samninga.

Það hefði verið öðruvísi ef hér hefði verið um að ræða niðurstöðu sem hefði verið afleiðing laga. Þá gæti hv. þingmaður með rökum kvartað undan því frá þeim sérkennilega sjónarhóli sem hann hleður upp og stendur síðan á þegar hann heldur þessar tölur sínar. En þetta var niðurstaða frjálsra samninga. Það skiptir máli. Alþingismenn geta ekki komið og bölvað og ragnað eins og naut í flagi yfir því að sveitarfélög og grunnskólakennarar nái niðurstöðu í frjálsum samningum.

Ég verð að segja að ef ég ætti hatt og væri með hann í þessum stól, frú forseti, þá mundi ég taka hann ofan fyrir sveitarfélögunum. Ég tel að þau hafi sýnt kjark og framsýni með því að ráðast í þessa samninga þegar fyrir lágu lög um gerðardóm. Með þeim ósóma, gerðardómnum, og þá á ég við 3. gr. laganna sem samþykkt voru hér gegn öllum atkvæðum stjórnarandstöðunnar á laugardaginn, þá lá fyrir að auðvelt væri að færa rök að því að niðurstaða gerðardómsins yrði að öllum líkindum verri en miðlunartillagan. Mér finnst það því sýna lýðræðislegan þroska hjá sveitarfélögunum að fara þessa leið.

Er það þá þannig, frú forseti, að líklegt sé að þessir samningar setji allt úr böndum í þjóðfélaginu og leiði til of mikillar þenslu sem leiði til þess að þjóðfélagið fari á hliðina? Það sagði hv. þingmaður hér áðan.

Við skulum vona að okkur takist sameiginlega að stýra og aka seglum þjóðarskútunnar þannig að hana beri ekki á sker. En ríkisstjórnin hefur verið vöruð við. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa ítrekað bent á misfellur í stjórn ríkisfjármála sem því miður gætu leitt til þess að þjóðarskútuna bæri af leið. Þau atriði eru mun alvarlegri en sá samningur sem gerður var í gær.

Hv. þingmaður hlýtur að hafa hlustað á þá menn sem hafa varað við þeirri þróun sem er að koma í ljós varðandi verðlag og verðbólgu. Sú þróun réði miklu um niðurstöðu atkvæðagreiðslu miðlunartillögu sáttasemjara.

Það er ekki hægt að lá kennurum að hafa ekki viljað taka möglunarlaust við þeim kjarabótum og launahækkunum sem miðlunartillagan fól í sér þegar við blasir að á næstu mánuðum og missirum mun verðbólga þróast þannig að hún hefði meira en étið upp launahækkanirnar sem voru í boði. Verðbólguþróunin er langt umfram það sem menn gerðu ráð fyrir þegar þeir gerðu kjarasamninga á frjálsum vinnumarkaði á síðasta ári. Hún er töluvert fram yfir það sem var að finna í spá fjármálaráðuneytisins sem lá til grundvallar fjárlögum sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur verið að véla um í vetur.

Verðbólguþol samfélagsins er samkvæmt mati Seðlabankans 2,5%. Verðbólgan núna er í 4% á tólf mánaða grundvelli, að hlaupa í 6% og það liggur fyrir að hagdeild ASÍ hefur spáð því að það verði nauðsynlegt að segja upp kjarasamningum Alþýðusambands Íslands á næsta ári ef svo heldur sem horfir vegna þess að þá muni verðbólguforsendurnar bresta. Greiningardeild Landsbanka Íslands hefur sagt að undir lok næsta árs verði verðbólgan líklegast komin í 6%.

Það er alveg ljóst að það eru ekki grunnskólakennarar sem með samningum sínum í gær hafa leitt til að verðbólgan færi úr böndum. Hún er farin úr böndum. En mér þótti gæta ósamkvæmni í reiðilestri hv. þingmanns áðan sé horft til orða hans í sjónvarpsþætti í gær þegar hann var að tala við hv. þm. Ögmund Jónasson. Þá talaði hann um verðbólguskot sem mundi líða hjá. Hann hafði ekki miklar áhyggjur þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson útskýrði fyrir honum hvers vegna það hefði ráðið úrslitum hjá mörgum kennurum þegar þeir felldu miðlunartillöguna að verðbólgan væri að verða miklu meiri en ætlað var, fyrst og fremst vegna agaleysis ríkisstjórnarinnar. Þegar ég tala um agaleysi ríkisstjórnarinnar á ég við þá staðreynd, frú forseti, að hér er viðskiptahallinn að fara úr böndum. Hann er á um það bil 100 milljarðar á þessu ári og verður á næsta ári 164 milljarðar kr. Fram til ársins 2010, samkvæmt spám fjármálaráðuneytisins, verður hann 50 milljarðar kr. á ári. Hann verður 500 milljarðar kr. þegar kemur fram á árið 2010 ef ekkert gerist.

En auðvitað mun eitthvað gerast. Hvað mun gerast? Það sama og við höfum áður séð. Hann leiðréttir sig sjálfur, þ.e. heggur stoðir undan genginu og gengið fellur. Það mun gerast og verðbólgan mun aukast meira. Hv. þingmaður segir segir hins vegar ekki ærlega frá því sem valdið hefur þessum mikla viðskiptahalla. Eru það kennararnir með samningi sínum í gær? Nei. Eru það fjárfestingar vegna stóriðjuframkvæmda fyrir austan? Er það svo, frú forseti? Getum við réttlætt þennan mikla viðskiptahalla með því að þar sé um tímabundinn uppsafnaðan halla að ræða sem muni leiða til þess að mikill arður mun skapast í íslensku samfélagi? Að hluta til. En þegar viðskiptahallinn er greindur kemur því miður í ljós að helmingurinn af honum stafar af aukinni einkaneyslu sem enginn gerði ráð fyrir.

Af hverju stafar aukin einkaneysla? Hún stafar af tvennu, frú forseti, og báða þá þætti má rekja til ríkisstjórnarinnar. Í fyrsta lagi hefur orðið breyting á húsnæðislánamarkaði. Segja má að sú breyting sé til góða fyrir þá sem hennar njóta. En það er ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að hún hefur leitt til þess að hér hefur orðið þensla og aukin verðbólga. Hún hefur öðrum þræði einnig leitt til aukinnar einkaneyslu.

Hitt atriðið eru þær ábyrgðarlausu og gáleysislegu yfirlýsingar sem hæstv. fjármálaráðherra, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og ríkisstjórnin eru sek um og varða skattalækkanir. Í þensluástandinu ræða menn um það eins og sjálfsagðan hlut að innan tíðar verði ráðist í skattalækkanir upp á 23 milljarða kr. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gat þess að nú þegar væri búið að ákveða skattalækkanir um 4 milljarða kr.

Hverjar eru afleiðingarnar af svona yfirlýsingum? Afleiðingarnar eru auðvitað þær að miklar væntingar skapast. Það er verið að skapa væntingar hjá fólki um að innan tíðar fái það happdrættisvinninga í formi skattalækkana og fái bókstaflega seðlabúntin í hendur. Reynslan sýnir að við þær aðstæður eykst einkaneysla. Yfirlýsingar hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar um þetta efni hafa leitt til aukinna væntinga og hvatt til eyðslu. Þar af leiðandi hefur einkaneyslan aukist og viðskiptahallinn með.

Það er viðskiptahallinn sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson var áðan að segja að væri svo hættulegur. En hann á sök á honum með hæstv. ríkisstjórn. Það er ekki hægt að koma hingað og segja að því ráði samningar kennara frá því í gær. Þegar við förum yfir sviðið sjáum við að meinsemdin hafði grafið um sig áður en menn gengu til þessara samninga. Samningarnir sem gerðir voru í gær eru að hluta til afleiðing en alls ekki orsök ástands sem þegar er farið að sýna sig.

Viðskiptahallann má rekja til aðgerða og ekki síður yfirlýsinga hæstv. ríkisstjórnar. Þar ber hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson einnig sök. Enginn hefur í ríkari mæli en hann talað um nauðsyn þess, nytsemd og möguleika á að lækka skatta í árferði eins og núna er. Drottinn minn dýri, frú forseti, auðvitað vildum við öll lækka skatta ef hægt væri en menn verða að velja tímann og þetta er ekki rétti tíminn til að gefa ábyrgðarlausar yfirlýsingar um að á næstu árum verði skattar lækkaðir um 23–24 milljarða kr. Engin alvörustofnun í öllum heiminum telur slíkt ráðlegt. Þvert á móti hafa allar stofnanir, sem hingað hafa komið eða eru staddar á Íslandi og hafa farið yfir ástandið, komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé hættulegt.

Varla verður Hagfræðistofnun Háskólans sökuð um að vera hlutdræg og mótdræg ríkisstjórninni. Hún hefur varað ríkisstjórnina við því að ráðast í skattalækkanir í þessari stöðu. Alþýðusamband Íslands, sem ég veit að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson metur og virðir, hefur komist að sömu niðurstöðu. Seðlabanki Íslands, sem ég veit að hv. þingmaður hefur ekki sömu mætur á og ASÍ en hefur eigi að síður líka komist að þessari niðurstöðu.

Samt sem áður lemur þessi ríkisstjórn hausnum við steininn og í þessu árferði er hún enn að tala um það, hvenær sem hún fær tækifæri til, að lækka skatta um tugi milljarða. Þetta skapar væntingar sem leiða til eyðslu og aukins viðskiptahalla sem grefur undan genginu. Það leiðir til þess að verðbólgan mun enn frekar aukast.

Þannig er samhengi hlutanna, frú forseti, og þetta hlýtur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson að vita. Hann á þess vegna ekki að koma hingað og lemja og skekja þennan saklausa ræðustól, eins og hann gerði fyrr í dag, og kenna grunnskólakennurum um. Það er ekki stórmannlega gert.