131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Áhrif verðsamráðs olíufélaganna á skatttekjur ríkissjóðs.

[15:41]

Þórarinn E. Sveinsson (F):

Herra forseti. Hér er til umræðu fyrirspurn um hvort ríkissjóður bæti borgurum það fé sem í ríkissjóð hefur runnið vegna ólögmæts samráðs olíufélaganna.

Niðurstaða samkeppnisráðs um samráð olíufélaganna er grafalvarlegt mál og afar skiljanlegt að fólki um allt land finnist það hafa verið platað og að þeim sem bera ábyrgð á þeim verknaði beri skylda til að bæta hverjum og einum þá fjármuni sem hafa verið hafðir af fólki með því vinnulagi. Því miður er þetta þó ekki svo einfalt í mínum huga.

Þær tekjur sem ríkissjóður hefur haft vegna þessa samráðs, ef einhverjar eru, umframtekjur má kannski kalla það, hafa á einn eða annan hátt runnið til venjubundinna útgjalda ríkisins. Ef ríkissjóður á að eyrnamerkja greiðslur sérstaklega sem einhvers konar skaðabætur vegna þessa leiðindamáls verður að sækja þá peninga eitthvert. Þá er ekki um annað ræða en að skera eitthvað af útgjöldum ríkisins niður og þar með draga úr þjónustu á einhverju sviði eða hækka skatta. Það er sama hvor leiðin væri farin. Það mætti með sanni segja að verið sé að innheimta þessa peninga aftur. Það er því að mínu viti bæði torsótt, illfær og a.m.k. óréttlát leið.

Frágangur og úrvinnsla þessa máls er í ákveðnum farvegi. Ein óbein afleiðing er t.d. sú að til stendur að styrkja Samkeppnisstofnun enn frekar. Það er eitt af hlutverkum okkar í þessum sal. Önnur meðhöndlun þessa máls fer í þann farveg sem lög gera ráð fyrir. Við megum gæta þess að fara ekki offari í refsingum og grípa til ráða sem gera allar afleiðingar þessa máls enn meiri og verri en ástæða er til.