131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[17:04]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar gerir hér að umfjöllunarefni tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og mér er auðvitað bæði ljúft og skylt að bregðast við þeirri umræðu.

Eins og hv. þm. veit hafa á undanförnum vikum og mánuðum átt sér stað viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um tekjuskiptingu þessara tveggja stjórnsýslustiga, fyrst og fremst með tilliti til breyttra verkefna, tilfærslna verkefna frá ríki til sveitarfélaga og með áherslu á eflingu sveitarstjórnarstigsins. Þær viðræður eru í fullum gangi, fundur í þeirri nefnd sem hv. þm. gerði að umfjöllunarefni fór síðast fram í gær. Ég reikna með öðrum slíkum fundi strax eftir helgi þannig að menn eru að leita leiða til að nágast það verkefni sem lagt var upp með.

Hv. þingmaður gerði hér einnig að umfjöllunarefni nýgerða kjarasamninga kennara og ummæli sem féllu í þessari umræðu í dag. Nú ætla ég, hæstv. forseti, ekki að fara að túlka þau ummæli en ekki hvarflar að mér að sveitarfélögunum detti í hug að senda ríkinu reikning vegna þeirra samninga. Mér dettur bara ekki í hug, hæstv. forseti, að sveitarstjórnarmenn í landinu láti það hvarfla að sér. Aldrei mundi ég gera þeim upp slíkar skoðanir, hæstv. forseti, ég veit að ábyrgðin á þeim bæ er meiri en svo.