131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[18:03]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það fjölgar svo fákunnandi fólki í kringum hv. þingmann að það er engu líkara en að hann sé eini talsmaður hófsemi og skynsemi í ríkisfjármálum á Alþingi, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu.

En þó hv. þingmaður rembist eins og rjúpan við staurinn að gera hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson, Ögmund Jónasson og Steingrím J. Sigfússon ábyrga fyrir lausatökum í ríkisfjármálum og verðbólguþróuninni tekst honum það ekki. Hún er á hans eigin ábyrgð.

En þar sem þingmaðurinn spyr er sjálfsagt að svara því að Samfylkingin taldi að kennarar ættu kröfu á sérstakri leiðréttingu. Það gilti ekki almennt um allar stéttir heldur ætti að vera einstakur samningur og hún hefur af ábyrgð mætt þeim kostnaði, m.a. í Reykjavík með sérstakri útsvarshækkun, vegna þess að þó Samfylkingin sé í stjórnarandstöðu er stefna hennar í ríkisfjármálum stórum ábyrgari en hv. þingmanns sem þó fer mikinn í ræðustól.

Alþýðusamband Íslands hefur gagnrýnt mjög skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar og sagt að forsendur kjarasamninga séu brostnar vegna verðbólguþróunarinnar. Stefna Samfylkingarinnar í ríkisfjármálum er að hafa skattalækkanir mun hóflegri en ríkisstjórnin vill og að þær komi hinu almenna launafólki, m.a. í framleiðslunni, mun betur til góða en fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar. Það er sú ábyrgð sem við hljótum að kalla eftir hjá ríkisstjórninni nú þegar hún hefur misst tökin á verðbólguþróuninni. Ef hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson tekur ekki undir með þeim sjónarmiðum að varhugavert sé við þessar aðstæður að ráðast í nærri 30 milljarða skattalækkanir er hv. þingmaður ekki sá talsmaður ábyrgðar og festu í fjármálum íslenska ríkisins sem hann hefur um langt árabil gefið sig út fyrir að vera.