131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Viðræður utanríksráðherra Íslands og Bandaríkjanna.

[15:20]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Rétt er að taka fram að þó ekki hafi komið sérstök tilkynning frá bandaríska utanríkisráðuneytinu um viðræðurnar var farið yfir það af okkar hálfu hvað væri eðlilegt að við segðum um niðurstöðu umræðunnar. Ég lít því þannig á að Bandaríkjastjórn og sérstaklega utanríkisráðherrann sé samþykkur þeim túlkunum sem við höfum látið fara af fundinum.

Það var afar þýðingarmikið að á fundinum kom fram að utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefði haft tækifæri þá þegar um morguninn að fara yfir fundarefnið með forseta Bandaríkjanna í tilefni þess að hann ætti fund með mér síðdegis sama dag, þannig að forsetinn var inni í málinu. Ég hitti síðan forsetann stuttlega að máli aftur í Arkansas af öðru tilefni.

Forsetinn fylgist því afar náið með málinu og ekki vafi á því í mínum huga að afstaða hans er ljós, að hann meti það svo að sérhver þjóð þurfi að búa við lágmarksloftvarnir.

Hitt er annað mál að við getum ekki gert kröfu til þess að Bandaríkin haldi óbreyttri starfsemi hér, það höfum við aldrei gert.