131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Viðræður um skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaga.

[15:32]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Mér þykir athyglisvert að þetta mál skuli tekið upp undir þessum dagskrárlið í ljósi þess að mér skilst að formaður Samfylkingarinnar hafi óskað eftir og fengið samþykkt meðal þingflokksformanna og forseta þingsins að ræða þetta mál utan dagskrár síðar í vikunni. En það er önnur saga.

Fyrir liggur nýleg viljayfirlýsing sem við félagsmálaráðherra undirrituðum ásamt formanni Samtaka sveitarfélaga um þetta mál. Á grundvelli þeirrar yfirlýsingar hafa þessar umræður átt sér stað nú upp á síðkastið í hinni svokölluðu tekjustofnanefnd ríkis og sveitarfélaga. Sú nefnd er auðvitað tengd miklu stærra verkefni sem lýtur að eflingu sveitarstjórnarstigsins í landinu, fækkun sveitarfélaga en jafnframt tilflutningi verkefna frá ríkinu til sveitarfélaganna og hugsanlega að einhverju marki öfugt. Þetta er stórt mál, það hefur verið lengi í undirbúningi, vel hefur verið að því staðið af hálfu ráðherra sveitarstjórnarmála, félagsmálaráðherranum, en það er ekki búið að ná landi í þessum efnum. Þetta var verkefni tekjustofnanefndarinnar númer eitt, eins og ég hef skilið það, og á grundvelli viljayfirlýsingarinnar starfar þessi nefnd.

Ýmsir í röðum sveitarstjórnarmanna hafa hins vegar viljað taka upp aðra hluti sem þessum málum eru fjarskyldir en sem að mínum dómi eiga ekki að öllu leyti heima á verksviði umræddrar tekjustofnanefndar. Ég treysti því og vænti þess að nefndin muni halda áfram vinnu sinni á grundvelli þeirrar yfirlýsingar sem forustumenn sveitarfélaganna, formaður og framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga, og við félagsmálaráðherra undirrituðum fyrir nokkrum vikum.