131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[15:40]

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nú er verið að ganga til atkvæðagreiðslu um breytingar á frumvarpi til fjáraukalaga og sundurliðað fjáraukalagafrumvarp við hefðbundna 2. umr. Meginhluti frumvarpsins og þeirra breytinga sem hér eru lagðar fram á gjaldahliðinni eru vegna vöntunar á fjármagni til einstakra útgjaldaliða sem var í sjálfu sér fyrirsjáanlegt við gerð fjárlaganna á síðasta ári. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs bentu ítrekað á þetta og fluttu breytingartillögur við frumvarpið sem var afgreitt sem fjárlög fyrir þetta ár. Nú er verið að flytja leiðréttingar við sömu liði.

Ég bendi á framhaldsskólann. Það var alveg ljóst að verulegt fjármagn vantaði til þess að fjármagna framhaldsskólann í haust. Nú er að vísu bætt nokkuð úr en enn skortir á að framhaldsskólarnir geti rekið sig með eðlilegum hætti og enn verða þeir að bera skuldahala upp á um 600 millj. kr. til næsta árs að óbreyttu. Því fer fjarri að vinnubrögðin hér séu með þeim hætti sem eigi að vera eða ábyrg geti talist. Fleiri stofnanir og verkefni á vegum ríkisins fá ekki úrlausn og búa áfram við fjárskort vegna vanáætlaðra útgjalda. Aftur virðist ýmsum gæluverkefnum ríkisstjórnarinnar hampað, svo sem sérsveitum ríkislögreglunnar og eins og 100 millj. kr. til að hervæða íslenska ríkisborgara á erlendri grund við hlið hersveita Bandaríkjamanna. Þetta er tekið í forgang.

Ég vil minna á erfiða stöðu sveitarfélaganna. Ég flyt fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs breytingartillögu sem felur í sér að styrkja og koma til móts við brýnan fjárhagsvanda sveitarfélaganna á þessu ári. Í heildina er þetta frumvarp unnið fullkomlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar á þingi þannig að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munum almennt sitja hjá við atkvæðagreiðslu á einstaka liðum þess. Við flytjum sjálf breytingartillögu og einnig áskiljum við okkur rétt til að vera með sérafstöðu gagnvart einstaka liðum sem hér koma upp, eins og t.d. um fjárstuðning við hervæðingu íslenskra ríkisborgara.