131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[19:12]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla rétt aðeins að fara yfir þetta. Það er verið að reyna að draga fram raunverulegan kostnað háskólanna sem þeir þurfa að leggja út þegar kemur að skráningu og innritun varðandi stúdentana.

Stór hluti þessarar hækkunar er auðvitað vísitölutengingin og verðlagsuppbótin þannig að menn átti sig líka á því að fjárhæðin 32.500 hefur ekki verið verðlagsuppfærð síðan hún var samþykkt á sínum tíma á þinginu 2000–2001.

Ég vil undirstrika að það má meta þessa hækkun þannig, ef menn vilja fara í þá talnaleiki sem menn hafa verið í hér, að það eru u.þ.b. 1.400 kr. á mánuði í níu mánuði sem þessi hækkun nemur.

Ég vil einnig undirstrika það að ég á afskaplega gott samstarf við háskólarektor og þá sem stjórna þar. Ég á bæði formlega og óformlega fundi og það koma að sjálfsögðu ákveðnir hlutir fram á formlegum fundum sem eru þá skráðir til bókar, og það kom fram ósk, og ég vil undirstrika það, á einum slíkum fundi þar sem er sérstaklega farið fram á þessa hækkun sem hefur verið undirstrikuð síðan og ítrekuð.

Ég vil líka árétta það, virðulegi forseti, að þessar tölur og þetta frumvarp fer til meðferðar í hv. menntamálanefnd þar sem hv. þm. Mörður Árnason er að mér skilst einn nefndarmanna, þannig að ég held að honum gefist þá tóm og tækifæri til að fara gaumgæfilega yfir þær tölur sem háskólarnir hafa lagt fram máli sínu til stuðnings.