131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:07]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ekki ætla ég að dæma um hvor þeirra félaganna er í vörn, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon eða hæstv. fjármálaráðherra, en satt að segja átti ég von á því að hæstv. fjármálaráðherra kæmi til þessa fundar glaður og reifur og mundi berja af mikilli list bumbur þessa fagnaðarerindis sem hann hefur verið að boða núna bráðum á þriðja ár. Ég átti ekki von á því að hæstv. ráðherra kæmi og væri svona önugur í garð ræðna sem enn hafa ekki verið fluttar.

Hæstv. ráðherra talaði um að hann væri hingað kominn til að boða arðgreiðslur til almennings en það sem stendur auðvitað upp úr þessu frumvarpi, sem er ákaflega merkilegt frumvarp, er sú staðreynd að arðgreiðslurnar sem hæstv. ráðherra boðar eru allar út á tiltölulega fjarlæga framtíð. Obbi þeirra skattalækkana sem verið er að bjóða almenningi í dag á að koma — hvenær, herra forseti? Rétt fyrir kosningar. Þetta eru margnotuð kosningaloforð sem hér er verið að reiða fram enn einu sinni. Þau voru notuð til að reyna að bjarga Sjálfstæðisflokknum fyrir síðustu kosningar en tókst ekki. Sá ágæti flokkur tapaði 7% þrátt fyrir þessi miklu loforð. Það er búið að leggja þetta fram nokkrum sinnum síðan og nú er þetta lagt fram í enn eitt skiptið einmitt á þeim tímapunkti þegar hæstv. ríkisstjórn á í miklum erfiðleikum, þeim mestu sem hafa mætt henni á skeiði hennar til þessa. Í hverju felst þá frumvarpið? Fyrst og fremst í því að lofa skattalækkunum fyrir kosningar. Þær eiga að koma rétt fyrir kosningar og væntanlega ætla stjórnarflokkarnir að reyna að endurtaka leikinn og hala inn atkvæði út á þetta margendurtekna kosningaloforð. Þetta minnir á ágætt verk eftir höfundinn Gabriel Garcia Marquez, Frásögn um margboðað morð, og verður enginn hissa þegar loks kemur að því.

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra var í vörn þegar hann var að tala um að menn litu svo á að klifun hans á skattalækkunum síðustu missirin hefði leitt til væntinga sem hefðu að hluta til átt sök á þenslunni. Og ég verð að segja, herra forseti, að ég er þeirrar skoðunar að gáleysislegt tal hæstv. ráðherra sí og æ um að nú sé almenningur að fá happdrættisvinning í formi gríðarlegra skattalækkana hafi ýtt undir eyðslu og einkaneyslu í samfélaginu. Ég held að þetta sé skýringin á því að nú er komin upp sú staða að hér er mikill og vaxandi viðskiptahalli sem hæstv. fjármálaráðherra átti ekki von á. Þegar við lögðum fram okkar hugmyndir og tillögur í kosningabaráttunni gerðu menn sér grein fyrir ákveðnum hagvexti. Menn gerðu sér grein fyrir stórframkvæmdum sem lágu þá fyrir og ljóst var að mundu leiða til vaxandi tekna í samfélaginu og ákveðins viðskiptahalla en menn áttu ekki von á þeim gríðarlega viðskiptahalla sem nú er að verða til. Það kemur í ljós að 40% af honum stafar af einkaneyslu. Af hverju sprettur sú einkaneysla? Menn eru að eyða út á framtíðina, eyða út á þessi gáleysislegu gylliboð hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að hann er að selja fugla í skógi, ekki þá sem hann hefur í hendi. Það má kannski segja að þær lækkanir sem hæstv. ráðherra leggur til að samið verði um á þessu ári og hugsanlega því næsta byggi á efnislegum staðreyndum og að hægt sé að réttlæta þær, en um leið og menn koma lengra fram í þennan tíma, dreg ég í efa að hæstv. ráðherra sé sá spámaður sem við eigum helst að geta reitt okkur á.

Við getum ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að þegar við skoðum spádóma um hagstærðir á síðustu árum kemur í ljós sú nöturlega staðreynd að hæstv. fjármálaráðherra og ráðuneyti hans eru einmitt þær stofnanir sem virðast verst til þess fallnar að spá fyrir um þróun hagstærða. Það er alveg sama hvort við skoðum viðskiptahallann, verðbólgu eða atvinnuleysi, hæstv. fjármálaráðherra hefur haft rangt fyrir sér um alla þessa hluti. Þegar við skoðum spár hæstv. ráðherra eins og þær hafa birst okkur í fjárlagafrumvörpum og samþykktum fjárlögum, t.d. afgang af ríkissjóði, kemur í ljós að á árunum frá 2000–2003 spáði hæstv. fjármálaráðherra því að ríkissjóður mundi skila 75 milljörðum í afgang. Hann endaði með 10 milljarða halla í fanginu. Útgjaldaspá hæstv. ráðherra sem er grundvallarstærð í efnahagskerfinu og við alla áætlunargerð var svo stökk að frá 2000–2003 fóru útgjöld ríkisins samanlagt 128 milljarða fram úr áætlunum, þ.e. 28 milljarða á hverju einasta ári þannig að ég leyfi mér að halda því fram, herra forseti, að þær kristalkúlur sem hæstv. fjármálaráðherra og völvur hans í ráðuneytinu spá í séu ekki sá grundvöllur sem við eigum að nota til þess að bjóða skattalækkanir í fjarlægri framtíð eins og hæstv. ráðherra er að gera. Ég tel að miðað við ástandið í efnahagsmálum núna og þá staðreynd að stöðugleikinn sem áður ríkti er ekki fyrir hendi, eins og við sjáum bara á tölum um viðskiptahalla og verðbólgu, sé ekki hægt að spá með þessum hætti. Og nú hefur hæstv. fjármálaráðherra sjálfur sagt, síðast í útvarpi í gær, að vegna þess að hér ríkti svo mikill stöðugleiki væri hægt að gera þessar langtímaspár um skattalækkanir.

Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra um það að á tímum stöðugleika í efnahagsumhverfinu er hægt að gera slíkt, en þarna greinir Samfylkinguna og ríkisstjórnina á. Við teljum að sá stöðugleiki sem blasti við þegar kosningum sleppti árið 2003 sé ekki lengur fyrir hendi og það skiptir öllu máli.

Herra forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir verðskuldar að vera tekið til málefnalegrar og ítarlegrar umræðu. Það er fjarri því að hægt sé að segja að frumvarpið sé alvont. Í því er hægt að finna ýmislegt jákvætt og ég nefni sérstaklega tillögur um auknar barnabætur. Þær tillögur ganga að mörgu leyti í sömu átt og Samfylkingin hefur látlaust talað fyrir en hingað til að mestu leyti fyrir daufum eyrum þessarar ríkisstjórnar. Ég held að við getum öll verið sammála um að hækkun á barnabótum er löngu tímabær. Hún er sá hluti af tillögum ríkisstjórnarinnar sem er auðvelt að samþykkja og reyndar eini hlutinn sem Samfylkingin telur að koma ætti til framkvæmda fyrr en frumvarp hæstv. ríkisstjórnar gerir ráð fyrir.

Ég rifja það upp, herra forseti, að í kosningabaráttunni lagði Samfylkingin sérstaka áherslu á að barnabætur yrðu hækkaðar ásamt helmingslækkun matarskattsins. Það voru ákaflega margir í þeirri kosningabaráttu sem tóku undir með Samfylkingunni og sérstaklega minni ég talsmenn Sjálfstæðisflokksins á að þeir voru sammála Samfylkingunni á þeim tíma um að lækkun matarskattsins væri líklega besta aðgerðin sem hægt væri að ráðast í til að jafna kjörin og lækka skatta vegna þess að hún kæmi þeim líka til góða sem hefðu svo lágar tekjur að þeir greiddu ekki einu sinni skatt af þeim.

Ég rifja það upp að hv. formaður efnahagsnefndar sagði í sjónvarpsþætti með stallsystur minni úr Samfylkingunni, hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, að það væri rétt að sú aðgerð hefði meiri jafnandi áhrif en lækkun tekjuskattsprósentunnar. Maður hlýtur auðvitað að spyrja sig, herra forseti: Hvernig stendur á því að hvergi bólar á lækkun matarskattsins sem hæstv. fjármálaráðherra var svo sammála Samfylkingunni um í kosningabaráttunni að væri mikilvæg og nauðsynleg aðgerð? Hún var reyndar einna efst á forgangslista þess ágæta flokks í kosningabaráttunni.

Að því er varðar barnabæturnar, herra forseti, teljum við í Samfylkingunni að það sé vonum seinna að barnafólki sé skilað a.m.k. hluta af þeim stuðningi sem það hefur misst í formi lægri barnabóta í tíð þessarar ríkisstjórnar. Frá því að hún tók við, þegar Framsóknarflokkurinn gekk inn í ríkisstjórnina árið 1995, hafa barnabætur lækkað, ekki aðeins á föstu verðlagi heldur líka sem hlutfall af landsframleiðslu. Ég veit það og hef lesið eftir hæstv. fjármálaráðherra að hann gefur lítið fyrir það. Barnafjölskyldur í landinu eru honum hins vegar ekki sammála. Þær gefa ekki lítið fyrir það og það er einfaldlega staðreynd að frá því að Framsóknarflokkurinn settist í ríkisstjórn og fram að síðustu kosningum, árið 2003, hafa barnabætur samtals verið 10 milljörðum lægri en þær hefðu orðið ef raungildi þeirra hefði haldist óbreytt frá 1995 þegar þær voru 6,4 milljarðar.

Hækkunin sem er lögð til hérna, herra forseti, er um 2,4 milljarðar á ári þegar tillögurnar eru komnar til fullra framkvæmda. Það má því segja að þær séu einungis fjórðungur þeirrar upphæðar sem barnafólk var hlunnfarið um síðasta áratug. Það er líka augljóst að hækkun barnabótanna á þar að auki ekki að koma til fullra framkvæmda fyrr en árið 2007. Þessu mikilvæga máli sem varðar allar fjölskyldur í landinu er því klárlega ekki raðað í sama forgang og lækkun hátekjuskatts, lækkun á tekjuskatti eða afnám eignarskatts. Það er vægast sagt sérkennilegt. Ég verð hins vegar að segja að það er í takt við framkomu þessarar ríkisstjórnar við barnafjölskyldur í landinu.

Við í Samfylkingunni teljum þetta kolranga forgangsröðun. Af þeim tillögum sem hæstv. fjármálaráðherra rakti og rökstuddi í máli sínu hér áðan teljum við að hækkun barnabóta eigi vitaskuld að vera í forgangi. Þar er um að ræða besta partinn af tillögum ríkisstjórnarinnar og við í Samfylkingunni viljum greiða fyrir að þær komi til framkvæmda sem fyrst. Við munum þess vegna leggja til flýtingu á gildistöku hækkunarinnar við afgreiðslu málsins og sömuleiðis munum við leggja fram breytingartillögu um það að matarskatturinn verði lækkaður um helming um mitt næsta ár. Í staðinn teljum við að fresta eigi þeirri 1% lækkun tekjuskatts sem á að koma til framkvæmda á næsta ári. Þarna er um að ræða sömu upphæð þannig að ef ríkisstjórnin hlítir þessum tilmælum Samfylkingarinnar er ljóst að það verður engin röskun á áformum hennar um tekjur og útgjöld vegna þessa máls.

Því miður er það þannig að þegar farið er í gegnum þetta frumvarp blasir við að hækkun barnabóta er aðeins lítill hluti tillagnanna sem er að finna í frumvarpinu. Hækkunin varðar ekki nema tæplega tíunda hluta þess kostnaðar sem segja má að frumvarpið feli í sér fyrir ríkissjóð.

Meginefni þessa frumvarps eru hins vegar skattalækkanir sem auka á ójöfnuð í samfélaginu, skattalækkanir sem færa þeim mest sem hafa mest fyrir, hinum minna og þeim verst stöddu í rauninni ekki neitt. Þessar tillögur breikka þess vegna bilið milli Íslendinga en brúa það ekki. Þær fela í sér skattalækkanir sem flytja milljarða króna í vasa þeirra sem fylla flokk hátekjufólks og þurfa allra síst á liðsinni hins opinbera að halda.

Til marks um þessa staðhæfingu, herra forseti, nefni ég það að sá fjórðungur skattgreiðenda sem minnstar tekjur hefur á ekki að fá nema 300 millj. í sinn hlut af þeim fimm milljörðum sem ríkisstjórnin ætlar á næsta ári að verja til þess að lækka tekjuskatt. Það er auðvitað sláandi í ljósi þess að sá fjórðungur sem hefur aftur á móti mestar tekjur á að fá í sinn hlut ríflega átta sinnum meira, þ.e. tvo og hálfan milljarð. Þetta er nú allt réttlæti ríkisstjórnarinnar.

Ég verð að taka undir með hv. þm. Frjálslynda flokksins, Guðjóni Arnari Kristjánssyni, að þegar skattalækkunarstefna ríkisstjórnarinnar er skoðuð er engu líkara en að þar sé beinlínis forgangsraðað með hagsmuni hátekjumanna í fyrirrúmi. Hátekjumennirnir fá meiri skattalækkanir í krónum talið og þeir fá þær fyrr. Þessar áherslur speglast auðvitað ákaflega vel í þeim breytingum sem verða samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar á næsta ári, eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson benti á hérna áðan. Á næsta ári ætlar ríkisstjórnin í senn að lækka sérstakan skatt á hátekjumönnum um helming og því til viðbótar er svo flöt lækkun á tekjuskatti sem færir þeim vitaskuld langflestar krónur í vasann.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að taka hérna nokkur auðskilin dæmi til að undirstrika hversu hróplegur munurinn er á milli hátekjumanna og hinna.

Þessar fyrirhuguðu tekjuskattslækkanir ríkisstjórnarinnar færa grunnskólakennara með meðallaun u.þ.b. 1.900 kr. í skattalækkun á mánuði sem nægir fyrir ríflega einum bleyjupakka. Láglaunafólk með 150 þús. kr. mánaðarlaun fær minna en tvo bíómiða mánaðarlega með skattalækkun ríkisstjórnarinnar. Framkvæmdastjórinn, sem hefur hálfa milljón á mánuði fær á öllu árinu tæplega 100 þús. kall í sinn vasa. Milljón króna maðurinn fær 23 þús. kr. í skattalækkun í hverjum mánuði sem svarar til einnar þokkalegrar utanlandsferðar. Slíkur einstaklingur fær á ári u.þ.b. 275 þús. kr. frá núverandi ríkisstjórn.

Ég sé að formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar glottir. Honum finnst sennilega skemmtilegt að hlusta á þetta. Þetta er örugglega stefna hans. Hann gleðst þá væntanlega yfir því líka að heyra að ofurforstjórarnir, eins og t.d. vinir hans sem stýra Símanum og öðrum ríkisfyrirtækjum, munu á einum mánuði fá á silfurdiski frá ríkisstjórninni sem svarar einni sólarlandaferð. Ég veit að hv. þingmanni finnst það sniðugt þegar hann ber það saman við ýmsa aðra.

Mér finnst þetta segja allt sem segja þarf. Milljón króna maðurinn fær meira en 12 sinnum hærri upphæð í skattalækkun á mánuði en grunnskólakennarinn fær í sinn vasa. Er þetta ekki augljós forgangsröðun? Er þá ekki augljóst að það eru hátekjumennirnir sem njóta forgangs hjá þessari ríkisstjórn?

Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra sagt það, ef ekki í ræðunni hér áðan þá í útvarpi í gær og víðar, að dæmið muni líta öðruvísi út þegar líður á kjörtímabilið og búið verður að taka barnabætur inn í dæmið. Það er ekki heldur rétt. Ef við brjótum að mergi kemur í ljós að næstu þrjú árin munu aðgerðir ríkisstjórnarinnar koma hinum efnuðu í samfélagi okkar langbest ef litið er til þeirrar upphæðar sem þeir fá í sinn vasa. Og það hljóta menn auðvitað að gera eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti réttilega á áðan.

Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra hefur mótmælt þessu og segir að það eigi ekki að skoða krónur heldur prósentur en það eru því miður ekki prósenturnar heldur krónurnar sem kaupa matinn á diskinn og það er það sem skiptir máli.

Ef við skoðum út frá þessum sjónarhóli hvernig mismunandi tekjuhópar koma út úr aðgerðunum, t.d. þar sem er að finna eitt barn undir 7 ára aldri sem er viðmiðun sem menn gjarnan taka, er munurinn líka jafnsláandi. Þá kemur í ljós að í fjölmennasta hópi einstæðra foreldra, þ.e. foreldra sem eru með eitt barn undir 7 ára, fær viðkomandi foreldri tæplega 8 þús. kr. í lækkun á mánuði. Framkvæmdastjórinn með hálfu milljónina fær hins vegar tæplega sex sinnum hærri upphæð frá þessari ríkisstjórn og milljón króna maðurinn fær tæplega 12 sinnum hærri upphæð en einstaklingur í fjölmennasta hópi einstæðra foreldra.

Þetta skiptir auðvitað máli og það er þetta sem við hljótum að vega á vogarskálunum þegar við tökum afstöðu til málsins. Við erum jafnaðarmenn í Samfylkingunni og okkur finnst þetta ekki rétta leiðin.

Sú þróun sem ég var hér að lýsa er alveg eins, kannski samt ekki eins skelfileg, þegar maður ber saman hjón. Hálaunahjón sem eru með 960 þús. kr. í tekjur á mánuði fá um 66 þús. í skattalækkun á mánuði. Lágtekjuhjón sem eru með kvartmilljón á mánuði fá um þrisvar sinnum lægri upphæð. Þetta er ekki réttlæti. Ég segi það, herra forseti, að ég get ekki, eftir að hafa verið 20 ár í stjórnmálum sem jafnaðarmaður, staðið upp og klappað fyrir þessu ranglæti.

Við í Samfylkingunni teljum þessar tillögur uppsprettu að ójöfnuði sem ýtir undir að í stéttlausu Íslandi verði til stéttir hinna efnameiri sem njóti meiri forréttinda en venjulegir alþýðupungar gera í dag. Það er ekki stefna sem ég get forsvarað, ekki stefna sem ég get tekið undir, ekki stefna sem ég get fallist á. Við getum einfaldlega ekki samþykkt lög sem við teljum, með þessum rökum sem ég er hér að leggja fram, hygla þeim sem þurfa ekki á aðstoð að halda í stað þess að rétta hlut þeirra sem hafa minnstu úr að spila og þurfa sannarlega á liðsinni okkar að halda til þess að geta dregið fram lífið með sæmd.

Við skulum heldur ekki gleyma því að þessi ríkisstjórn skuldar þeim mest sem hafa lægstar tekjurnar. Það var þessi ríkisstjórn sem með pólitískum ákvörðunum leiddi til þess að hér á Íslandi er orðinn til stór hópur fátæks fólks sem vart bjargálna er að stritast við að greiða tekjuskatt af launum sem fæstir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, fæstir þingmenn, gætu dregið lífið fram á. Þetta fólk, sem við þurfum að hugsa um, aldraðir einstaklingar, öryrkjar, langtímaatvinnulausir, greiddi lítinn eða engan tekjuskatt þegar þessi ríkisstjórn tók við 1995. Framganga ríkisstjórnarinnar gagnvart þessum góðu Íslendingum er á þann veg að að þeir sem í dag draga fram lífið á minna en 100 þús. kr. á mánuði greiða samt samanlagt á ári sem svarar til tveimur milljörðum í tekjuskatt. Ég segi: Ríkisstjórnin skuldar þessu fólki og ef það eru til milljarðar til þess að lækka skatta og til þess að bæta kjörin verða menn að hugsa um þessa hópa.

Herra forseti. Það eru til leiðir til að lækka skatta þannig að allir njóti lækkunarinnar og þeir njóti hennar hlutfallslega mest sem hafa minnstu úr að spila, líka þeir sem eru svo tekjulágir að þeir greiða nánast engan tekjuskatt. Sú leið felst í tillögunni sem Samfylkingin hefur mælt fyrir á Alþingi um að lækka matarskattinn. Við höfum lagt fram tillögu um að lækka matarskattinn um helming, úr 14% niður í 7%. Það er alveg sama hver staða manna er í samfélaginu allir þurfa að verja hluta af ráðstöfunartekjum sínum til að kaupa sér það sem við getum skilgreint sem brýnar nauðþurftir. Allir þurfa að kaupa sér kjöt, mjólk, grænmeti, fisk, brauð og mjölvöru. Það kemst enginn hjá því að eyða töluverðum hluta af tekjum sínum í það sem við höfum skilgreint sem brýnar nauðþurftir. Eftir því sem menn hafa lægri ráðstöfunartekjur eða hafa fleiri munna að metta hækkar hlutfall ráðstöfunartekna sem þeir þurfa yfirleitt að nota til að kaupa þær brýnu nauðþurftir.

Ég held að menn deili ekki um þetta. Ef hægt er að lækka matarverð í krafti þeirra tillagna sem Samfylkingin hefur lagt fram og aðrir flokkar hafa tekið undir og Sjálfstæðisflokkurinn barðist líka fyrir í kosningabaráttunni er um leið verið að hjálpa þeim hlutfallslega mest sem hafa minnstar ráðstöfunartekjur. Þess vegna er þetta forgangsmál að okkar mati. Lækkun matarskattsins kemur öllum vel, bæði þeim efnuðu en mest þeim efnaminni og langmest þeim sem hafa mjög lítið á milli handanna.

Við höfum rætt þessi mál á hinu háa Alþingi og komið hefur í ljós að hér er bullandi þverpólitískur meiri hluti fyrir því að lækka matarskattinn um helming. Samfylkingin hefur lagt fram tillögu um það, Sjálfstæðisflokkurinn hefur barist fyrir því í kosningabaráttu, lýst yfir stuðningi við málið í þessum sölum, formaður þingflokks Vinstri grænna sömuleiðis og formaður Frjálslynda flokksins hefur tekið opinberlega undir það. Það er bara einn flokkur sem hefur lagst gegn samþykkt málsins og það er Framsóknarflokkurinn. Svo einfalt er það mál. Ég veit að í hjarta sínu vill hæstv. fjármálaráðherra fara þessa leið. Ég hef ekki getað skilið málflutning hans með öðrum hætti þegar hann hefur talað af öðrum palli en hér. Sá ágæti maður talaði þannig í kosningabaráttunni. Það er því bullandi stuðningur við lækkun matarskatts á hinu háa Alþingi. Það er bara Framsóknarflokkurinn sem stendur gegn þessu.

Herra forseti. Við núverandi aðstæður teljum við í Samfylkingunni að bilið sé að breikka á milli tekjuhópa í samfélaginu og þess vegna sé rökréttast að skattkerfisbreytingar sem við eyðum peningum til úr sjóðum samfélagsins eigi að stuðla sem mest að auknum jöfnuði og minni mun á milli ólíkra hópa. Þær áherslur voru lagðar í kosningabaráttunni m.a. af okkur eins og hæstv. fjármálaráðherra rifjaði upp. Í kosningabaráttunni var aðaláhersla okkar í skattamálum og aðgerðir sem allir nutu, eins og lækkun matarskattsins um helming, hækkun barnabóta og hækkun persónuafsláttar. Við lögðum megináhersluna í kosningabaráttunni á lækkun matarskattsins af þeim ástæðum sem ég hef þegar rakið og við lýstum því skorinort að væri borð fyrir báru ætti að taka skref til að hækka barnabætur og persónuafslátt, enda væri það í takti við stöðu efnahagsumhverfisins að öðru leyti.

Ég tel að varla leiki vafi á því að eins og sakir standa leyfa aðstæður að ráðast t.d. í að framkvæma þá tillögu sem við höfum barist fyrir, lækkun matarskattsins. Í fyrsta lagi er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að það eru vaxandi tekjur í þjóðarbúinu um þessar mundir.

Í öðru lagi, og það ber ekki að vanmeta, hefur ríkisstjórnin hækkað skatta á þessu kjörtímabili um svipaða upphæð og nemur lækkun matarskattsins. Lækkun felur því í reynd í sér að við færum skattheimtuna með þeirri tillögu aftur niður á það stig sem hún var í upphafi kjörtímabilsins.

Í þriðja lagi er lækkun matarskattsins sérstök aðgerð að því leyti að hún slær á þenslu vegna þess að hún lækkar verðbólguna. Það hefur verið reiknað út af Hagstofunni fyrir Samfylkinguna, eins og fram kom í umræðum fyrr í vetur, að lækkun matarskattsins samkvæmt tillögum Samfylkingarinnar lækkar neysluvísitöluna um 0,8%. Það munar um minna. Þetta skiptir máli. Aðgerðin hefur því líka áhrif á skuldabyrði landsmanna og við skulum ekki gleyma því.

Við teljum hins vegar, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, að í núverandi efnahagsumhverfi sé ekki hægt að lofa skattalækkunum lengra fram í tímann en í hæsta lagi til fjárlaga næsta árs. Þar greinir okkur alvarlega á við hæstv. fjármálaráðherra. Við erum honum algjörlega ósammála um stöðu og þróun efnahagsmála. Við höfum eins og ég sagði áðan gagnrýnt hann fyrir að selja fugl í skógi, fyrir að lofa skattalækkunum sem eiga ekki að koma til framkvæmda fyrr en undir lok kjörtímabilsins. Hæstv. fjármálaráðherra hefur svarað því fyrir sitt leyti eins og ég rakti áðan að núna ríki stöðugleiki í efnahagsmálum og í því ljósi sé verjanlegt að gera slíkar spár og áætlanir fram í tímann. Mér fannst að vísu hæstv. ráðherra ekki vera mjög sannfærður sjálfur þegar hann mælti fyrir málinu og reifaði einmitt þau rök.

Ég ítreka hins vegar að ég og Samfylkingin er honum sammála að þegar stöðugleiki ríkir í efnahagsmálum er hægt að gera slíkar áætlanir. Þar kemur hins vegar að vegamótum á leið okkar og vegferð hæstv. ráðherra. Við teljum ekki að hægt sé að halda því fram að stöðugleiki ríki í efnahagsmálum eins og sakir standa. Ég held að fáir, fyrir utan þingmenn í stjórnarliðinu, taki undir þau orð hæstv. ráðherra vegna þess að þau teikn sem eru á lofi benda því miður flest til þess að óstöðugleikinn fari vaxandi. Varla er það til marks um stöðugleika þegar ríkisstjórn ræður ekki lengur við verðbólgu og hefur ekki lengur stjórn á viðskiptahalla.

Hins vegar er staðreynd að verðbólgan er á uppleið og viðskiptahallinn er mikill og fer því miður ört vaxandi. Ef við skoðum t.d. þróun verðbólgu og staðreyndir um verðbólguna held ég að þetta blasi við flestum. Í stað þess að verðbólgan sé 2,5% eins og gert var ráð fyrir í forsendum síðustu kjarasamninga er hún í dag 3–4%. Hagdeild ASÍ, sem hefur reynst mun sannspárri en fjármálaráðuneytið um þróun verðlags, spáir því að ef fram heldur sem horfir muni verðbólgan sprengja forsendur kjarasamninga og þeim kunni að verða sagt upp haustið 2005. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er það stöðugleiki sem speglast í þeirri staðreynd að hugsanlegt er að kjarasamningum verði sagt upp vegna þess að verðbólgan er farin úr böndunum?

Greiningardeild Landsbanka Íslands, sem við hljótum að líta á sem hlutlausa stofnun, segir fullum fetum að verðbólgan muni fara meira en tvöfalt fram úr verðbólgumörkum Seðlabankans. Það er svipuð þróun sem blasir við, þróun sem við höfum ekki lengur tök á þegar við skoðum líka viðskiptahallann og þar vísa ég til vitnisins sem situr hér á meðal vor, hæstv. fjármálaráðherra. Í greinargerð sem hann lagði fram með fjárlagafrumvarpinu kemur fram spá um viðskiptahalla og þó ég hafi að vísu áður sagt í ræðu minni að kannski sé lítt mark takandi á spám hæstv. ráðherra eru það einu gögnin sem ég hef um þróun viðskiptahalla undir höndum. Ég neyðist þess vegna til að leiða hana fram sem gögn í málinu. En samkvæmt þeirri spá kemur fram að á næstu árum verði viðskiptahallinn 10,5% af vergri landsframleiðslu. Hann verður í krónum talið 65 milljarðar á þessu ári, 104 milljarðar á því næsta og ég held að hann fari upp í 140 milljarða árið 2006. Árin þar á eftir, fram til 2010 sem spáin nær til, á hann að verða um 50 milljarðar á hverju ári. Hægt er að reikna þetta út. Í kringum 2010 eru u.þ.b. 500 milljarðar sem þannig hafa safnast í viðskiptahalla í útlöndum. Það þarf ekki mikið að gerast til að sú válega þróun geti sett ákaflega stór strik í reikning þjóðarbúsins varðandi gengi, verðbólgu og auðvitað skuldir landsmanna.

Þetta sýnir að stöðugleikinn sem ráðherra byggir skattalækkun sína á er ekki fyrir hendi eins og sakir standa. Efnahagsþróunin einkennist af verðbólgu sem ríkisstjórnin hefur litla stjórn á og viðskiptahalla sem er sterklega varað við af öllum þeim stofnunum sem eitthvað hafa komið nálægt íslensku efnahagslífi. Þá gildir einu hvort um er að ræða innlendar stofnanir eins og Hagfræðistofnun Háskólans, Seðlabanka Íslands eða Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Allar vara við þessari þróun. Þess vegna er ákaflega óvarlegt, svo ég kveði ekki fastar að orði, að lofa skattalækkunum mörg ár fram í tímann eins og hæstv. ráðherra gerir.

Stjórnmálamenn sem vilja fylgja eðlilegri varúð í efnahagsmálum gera það ekki við svona aðstæður. Sá tími kann að renna upp að stjórnmálamenn geti tekið slíkar áhættur og þá er sjálfsagt að skoða frekari lækkanir í takt við þær hugmyndir sem við höfum rætt um, eins og t.d. hugmyndir okkar í kosningabaráttunni um lækkun matarskattsins og um hækkun persónuafsláttar. Sá tími er hins vegar ekki í dag.

Við skulum heldur ekki gleyma því að hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni áðan og hefur margtekið fram á síðustu dögum, að árin 2007 og 2008 taki að slakna á framkvæmdum og þess vegna sé ráðrúm til að dengja lækkun skattprósentunnar með fullum þunga þar. Er það svo? Er alveg víst að það verði slaki þá? Höfum við ekki á síðustu dögum og vikum heyrt af framkvæmdum sem verið er að gera samninga um, sem mér fannst hæstv. forsætisráðherra tala um síðast í gær, sem benda til þess að slakinn sem átti að verða 2007, 2008 og eftir atvikum 2009 kunni að verða víðsfjarri þegar kemur að þeim tímapunkti? Þá getur staðan einfaldlega verið þannig að hæstv. ráðherra geti ekki staðið við þau loforð sem hann færir nú fram í krafti lagafrumvarps.

Þetta, herra forseti, hefur breyst frá því fyrir síðustu kosningar. Þá höfðu menn, eins og við munum öll sem sátum í þessum sölum og tókum þátt í umræðum um þróun efnahagslífsins, ráðist í samstillt átak verkalýðshreyfingar, ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu um að bjarga stöðugleikanum sem var í uppnámi fyrir jólin 2002 eins og menn muna þegar verðlagsþróunin var að sigla fram úr hinum rauðu strikum. Þá ríkti hér stöðugleiki. Þá voru fullar forsendur til að gera áætlanir fram í tímann sem byggðust á tiltölulega jafnri þróun hagkerfis þar sem viðskiptahallinn var ekki aðeins í böndum heldur á niðurleið. Þar sem verðbólgan var, ef ekki sú minnsta á EES-svæðinu þá a.m.k. ein sú minnsta. Þær aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi. Þess vegna er óráðlegt og blekkjandi gagnvart landsmönnum að lofa þeim skattalækkunum því þær byggjast á aðstæðum sem ríkisstjórnin hefur ekki fullt vald á.

Herra forseti. Að lokum get ég ekki annað en reifað það við hæstv. ráðherra að mér finnst hann gera ákaflega lítið úr þeim aðvörunarorðum sem fram eru sett af ýmiss konar sérfræðingum sem tengjast hlutlausum stofnunum. Ég vísa til þess að margir hafa komið fram og sagt að einmitt vegna þenslunnar sem nú ríkir í efnahagskerfinu sé ákaflega óvarlegt að gera ráð fyrir miklum skattalækkunum nema samsvarandi magn peninga sé tekið út úr kerfinu með niðurskurði og aðhaldi í ríkisútgjöldum.

Ég vísa t.d. til Tryggva Þórs Herbertssonar, sem hefur að öðru leyti tekið frekar jákvætt í hugmyndir ríkisstjórnarinnar um margvíslegar skattalækkanir sem hér hafa verið reifaðar. Hann hefur í blöðum og ljósvakamiðlum lagt áherslu á að brýnt sé að skattalækkunum sem ríkisstjórnin hefur ákveðið á næstu árum verði mætt með samsvarandi niðurskurði ríkisútgjalda. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er hann ósammála þessu? (Fjmrh.: Nei.) Er hann ósammála þeim aðvörunarorðum af nákvæmlega sama toga sem fram komu hjá Seðlabankanum fyrr á árinu og hafa síðan verið ítrekaðar, aðvörunarorðum sem ekki var hægt að skilja öðruvísi en á nákvæmlega sömu lund og fram komu í textum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrr á árinu? Er hann ósammála þessu? Ef hann er ósammála, með hvaða rökum er það? Ef hann er sammála því að þarna hafi menn lög að mæla og menn þurfa að ganga tiltölulega hægar um dyr verður hann að segja okkur með hvaða hætti hann hyggst grípa til aðhaldsaðgerða. Ætlar hann að grípa til niðurskurðar á einhverju sviði ríkisútgjalda? Ef svo er, er þá ekki sanngjörn krafa hjá stjórnarandstöðunni að fram komi hvers konar aðgerðir það eru?

Hv. þm. Birkir J. Jónsson greindi frá því í fjölmiðlum í gær, sem talsmaður ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, að fyrirhugaðar væru aðhaldsaðgerðir og fyrirhugaður væri niðurskurður. Þá er fullkomlega eðlilegt að spurt sé, herra forseti: Hvar á sá margboðaði niðurskurður að eiga sér stað? Kemur til greina að það verði niðurskurður t.d. innan heilbrigðisþjónustunnar og menntakerfisins?