131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:57]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alveg jafngagnkunnugur dagsetningum eins og hv. þingmaður að því er varðar það hvenær einstakar tillögur komu fram. (BÁ: Það er erfitt að henda reiður á því.) En jafnvel þó að svo væri þá liggur stefnan alveg ljós fyrir núna og munurinn á okkur og ýmsum öðrum stjórnmálaflokkum er sá að við forgangsröðum. Við teljum að ekki sé hægt að slæma hendinni út í loftið og ná öllum þeim fuglum sem fljúga um himinblámann eins og hv. þingmenn stjórnarliðsins virðast telja. Við höldum að það sé tiltekinn fjöldi smáfugla í hendi og við viljum deila þeim út í ákveðinni forgangsröð. Við viljum byrja á að lækka matarskattinn um helming eins og Sjálfstæðisflokkurinn, andstætt því sem Framsóknarflokkurinn vill, og við segjum það alveg klárt og kvitt að við viljum hækka barnabætur. Ég sagði hérna áðan: Ef viðrar til fuglaveiða þegar líður á kjörtímabilið (Gripið fram í.) þá skulum við t.d. ræða hluti eins og hækkun skattfrelsismarka. (Gripið fram í.) Er þá hv. þingmaður ánægður? (Forseti hringir.)

Stefnan er forgangsröðunin nákvæmlega eins og ég var að lýsa henni hérna.