131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:02]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er verið að fylgja úr hlaði meginstefnu ríkisstjórnarinnar sem verðar það að við ætlum að lækka skatta á íslensk heimili og íslenska launþega. Það frumvarp sem við ræðum hér felur í sér þá stefnu að hækka skattleysismörk um 20%, lækka tekjuskattsprósentuna um 4%, hækka barnabætur um 2,4 milljarða og afnema eignarskatt.

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram mjög fróðleg umræða í dag. Það virðist sem mörgum stjórnarandstæðingum hafi komið á óvart sú stefna sem hér hefur verið boðuð. Það var samt þannig fyrir síðustu kosningar að bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur lögðu mjög ríka áherslu á það að mjög brýnt væri að lækka greiðslubyrði heimilanna með þeirri aðgerð að lækka skatta. Framsóknarmenn lögðu mjög mikla áherslu fyrir síðustu kosningar á lækkun á tekjuskattsprósentunni og jafnframt lögðum við framsóknarmenn mjög mikla áherslu á stórhækkaðar barnabætur. Slíkt er að ganga eftir í því frumvarpi sem við ræðum hér í dag.

Hins vegar er sorglegt að vita til þess að Samfylkingin virðist vera búin að gleyma skattalækkunarloforðum sínum, loforðum trúlega upp á 30 milljarða. Hv. formaður Samfylkingarinnar talaði fyrir því í dag að mjög óráðlegt væri að fara í skattalækkanir í því ástandi sem nú væri í íslensku þjóðfélagi. Allir stjórnmálaflokkar og allir stjórnmálamenn vissu af því ástandi og þeirri þenslu sem fram undan var fyrir síðustu alþingiskosningar og ekkert nýtt hefur komið upp hvað varðar skipan efnahagsmála hér á landi. Ég mun víkja nánar að þeim stefnumarkmiðum sem Samfylkingin setti í forgang fyrir síðustu alþingiskosningar sem virðist því miður vera gleymd og grafin í dag.

Hæstv. forseti. Hvernig getum við skilað fólki þeirri kjarabót sem í þessum skattalækkunum felst? Það er í tvennu lagi. Núverandi ríkisstjórn hefur starfað frá árinu 1995 og hefur staðið að mjög ábyrgri og traustri efnahagsstjórn og staðið vörð um þann stöðugleika sem nú hefur ríkt á umliðnum tíu árum. Það er lykilatriði gagnvart því svigrúmi sem nú hefur myndast til þess að lækka skattbyrði heimilanna án þess að stefna efnahagsstöðugleikanum í hættu. Það má segja frá því hér að gagnvart þeim skattalækkunartillögum sem við erum að ræða hefur verið tekið tillit til ábendinga frá OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hvað varðar þá stefnumörkun sem hér hefur verið mótuð.

Hinn hlutinn af því svigrúmi sem við höfum nú náð að mynda til að lækka skattbyrðina er sú öfluga atvinnustefna sem ríkisstjórnin hefur rekið. Atvinnuleysið hér árið 1995 var miklu meira í tíð Alþýðuflokksins, þar af leiðandi stórs hluta af Samfylkingunni. Þegar hann var í ríkisstjórn 1991–1995 var bullandi atvinnuleysi og kjör almennings höfðu rýrnað allverulega.

Á þessu árabili, frá 1995 til ársins 2004, hefur kaupmáttur almennings aukist um 40%. Um heil 40%. Ég fullyrði að slíkt hefur ekki gerst í þeim löndum sem við berum okkur saman við, enda er horft til Íslands í því ljósi að mikill árangur hefur náðst hér í efnahagslífinu.

Samkvæmt þeim áformum sem við höfum uppi til að bæta kjör almennings enn betur með skattalækkununum mun kaupmáttaraukning íslenskra heimila, ef spár ganga eftir, verða 55%–55% raunhækkun árið 2007, eftir 12 ára starf þessarar ríkisstjórnar. Þar munar um minna.

Hæstv. forseti. Hv. stjórnarandstaða hefur farið hér mikinn og rætt um fyrirhugaðan niðurskurð í velferðarþjónustunni. Þar vita hv. stjórnarandstæðingar betur. Í langtímaáætlun í ríkisfjármálum er gert ráð fyrir þriggja prósenta raunaukningu, m.a. til heilbrigðismála og menntamála, umfram hækkun verðlags. Ef hv. þingmenn kalla þetta niðurskurð er það rangt. Allt tal hv. stjórnarandstöðu um niðurskurð er á miklum villigötum og það stendur ekki til að skera niður í velferðarkerfinu, enda hefur ekki verið skorið niður í velferðarkerfinu í tíð núverandi ríkisstjórnar. Aldrei hefur jafnmiklum fjármunum verið varið til menntamála, heilbrigðismála eða félagsmála almennt. (ÖS: Þetta segir fólk ekki uppi í háskóla.)

Hæstv. forseti. Þegar talið berst að viðkvæmu ástandi í efnahagsmálum — og við vitum, ég og hv. formaður Samfylkingarinnar, að andrúmsloftið í efnahagsmálum er viðkvæmt — er eins gott að hafa trausta ríkisstjórn sem er tilbúin að taka óvinsælar ákvarðanir. Við höfum farið í mjög margar sársaukafullar aðgerðir á umliðnum árum, m.a. höfum við frestað vegaframkvæmdum. Það eru ekki vinsælar ákvarðanir. Hv. formaður Vinstri grænna stendur hér uppi og gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir það að fresta vegaframkvæmdum um 4 milljarða. Slíkar aðgerðir geta verið nauðsynlegar til að standa vörð um stöðugleikann. Stöðugleiki er eitthvert orð sem hv. þingmenn Vinstri grænna kannast því miður ekki við.

Í upphafi þessa kjörtímabils bætti ríkisstjórnin sérstaklega kjör öryrkja og atvinnulausra en hér er komið að því að bæta kjör launafólks, fólksins sem stendur að allverulegu leyti undir velferðarkerfi okkar með þeirri vinnu sem það innir af hendi. Með þessu frumvarpi veitum við launafólki hluta af þeirri miklu tekjuuppsveiflu sem orðið hefur í íslensku þjóðfélagi á umliðnum árum, rétt eins og við lofuðum fyrir síðustu kosningar.

Meiri hluti þjóðarinnar kaus þessa tvo stjórnmálaflokka til að þessi stefnumið gætu gengið eftir. (Gripið fram í.) Ég held að hv. stjórnarandstaða verði að átta sig á því að meiri hluti þjóðarinnar stendur á bak við þessi loforð og meiri hluti þjóðarinnar stendur með ríkisstjórninni í því að lækka skatta almennt.

Ég ætla, hæstv. forseti, að fara ofan í þá þrjá liði sem þessar breytingar taka til, í fyrsta lagi um afnám eignarskattsins. Menn hafa útmálað afnám hans sem sérstaka aðgerð til að hygla eignafólki og stórauðugu fólki. Það er svoleiðis, segir hv. formaður Samfylkingarinnar. Það er bara rangt. Meiri hlutinn af því fjármagni sem rennur til eignarskattsins kemur úr vösum eldri borgara þessa lands — sem er eignafólk — fólks sem er með eina og hálfa milljón á ári eða minna í ráðstöfunartekjur, að allverulegu leyti.

Hvað þýðir afnám eignarskattsins fyrir dæmigerðan sjötugan einstakling sem er kominn með lífeyrisréttindi sín og hefur kannski milljón í árstekjur sem er mjög lágt? Hvað þýðir það fyrir viðkomandi einstakling ef hann situr í 15 millj. kr. íbúð hér úti í bæ? 60 þús. kr. í auknar ráðstöfunartekjur fyrir þessa sjötugu konu. Ég veit ekki betur en að hv. stjórnarandstaða hafi farið mikinn um kjör eldri borgara í landinu. Þegar ríkisstjórnin grípur til aðgerða sem munu bæta kjör eldri borgara allverulega ætlar stjórnarandstaðan að leggjast gegn því. Ja, öðruvísi mér áður brá.

Ég trúi ekki öðru en að hv. formaður Samfylkingarinnar sé mér sammála um að eignarskattur eigi ekki rétt á sér. Þessi sjötuga kona hefur borgað af húsnæði sínu í kannski 30 ár af launatekjum sínum sem við höfum þegar tekið skatt af. Síðan ætlum við að skattleggja sérstaklega þá eign sem hún hefur eignast í gegnum áratugina fyrir skattlagt fé með sérstökum skatti. Er ekki um tvísköttun að ræða? Ég trúi ekki öðru en að hv. stjórnarandstæðingar taki undir þennan málflutning, að það er ekki rétt að tvískattleggja eldra fólk með þessum hætti.

Hvað varðar tekjuskattsprósentuna og þá lækkun um 4%, úr 38,55% í 34,55%, göngum við ekki miklu lengra en að jafna hlutfallið frá þeim tíma þegar tekjuskattskerfið var sett á. Þá var tekjuskattsprósentan 35,2%. Hvað sögðu hv. þingmenn sem þá voru hér í þessum sal, trúlega hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri? Menn hafa trúlega haldið og sagt úr þessum ræðustóli að þetta mætti ekki hækka, hér væru menn búnir að finna þá skattprósentu sem mætti ekki fara hærra, við mættum ekki skattpína almenning. Við erum að færa skattprósentuna niður í sömu tölu og hún var við upphaf tekjuskattskerfisins.

Lækkun tekjuskattsprósentunnar hækkar líka skattleysismörkin og mun hækka skattleysismörkin um 15 þús. kr. Reyndar var það stefnumið Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar að hækka skattleysismörkin strax um 10 þús. kr. Hér er verið að ganga 50% lengra en Samfylkingin lagði fram á sínum tíma en í dag kemur hv. formaður Samfylkingarinnar og segir: Við skulum ekki lækka skatta, það er svo mikil þensla í þjóðfélaginu. (ÖS: Þetta er ekki rétt.) Það er svo mikil þensla í þjóðfélaginu. Aðvörunarbjöllur klingja hér um allt. (ÖS: Þetta er vitleysa.) Nú er ég að leggja út af orðum hv. þingmanns. Var þetta ekki allt vitað fyrir síðustu alþingiskosningar? Voru skattaloforð Samfylkingarinnar þá orðin ein? Ætluðu menn sér ekki að standa við þær skattalækkunartillögur sem þeir boðuðu þá? Hv. formaður Samfylkingarinnar var búinn að mynda hér vinstri stjórn ásamt vinstri grænum og frjálslyndum fyrir síðustu kosningar: „Fellum ríkisstjórnina.“ „Við munum mynda velferðarstjórn.“ Ég fullyrði að þá værum við ekki að tala um neinar skattalækkanir hér. Þvert á móti væri búið að hækka skatta líkt og vinstri grænir hafa lagt til. Ég hef ekki þá trú að vinstri grænir hefðu tekið sæti í ríkisstjórn sem hefði farið í lækkun skatta, stórfellda lækkun skatta eins og Samfylkingin boðaði, upp á 30 milljarða. Svo hrekkur hv. formaður Samfylkingarinnar af hjörunum þegar við tölum um rúmlega 20 milljarða kr. skattalækkun sem mun að allverulegu leyti taka gildi árið 2007. (Gripið fram í.) Öðruvísi mér áður brá.

Barnabæturnar munu hækka allverulega, um 2,4 milljarða. Hverja höfum við sérstaklega þar í huga? Lágtekjufólk og millitekjufólk með börn á framfæri sínu. Þetta var kosningaloforð Framsóknarflokksins. Ef við tökum þá tekjujöfnunaraðgerð sem verið er að gera hér gagnvart einstökum hópum erum við að bæta sérstaklega kjör lágtekjufólks og millitekjufólks sem hefur börn á framfæri sínu og eldri borgara. Stjórnarandstaðan er á öðrum endanum út af þessu máli. Stjórnarandstaðan talar hér ekki um neitt annað en að halda áfram í skattalækkunum og bæta nú matarskattinum ofan á. Þá erum við kannski komin upp í þessa 30 milljarða sem Samfylkingin lofaði á sínum tíma.

Ég spyr hv. þingmenn Samfylkingarinnar: Er ekki betri leið að koma þeim fjármunum til barnafjölskyldna milliliðalaust í formi barnabóta en að lækka matarskattinn? (Gripið fram í.) Treystum við því að þau 7% sem Samfylkingin leggur til að matarskatturinn lækki um berist milliliðalaust til neytenda? Og sá furðulegi málflutningur að matarkarfan hjá verkamanninum sé jafndýr og hjá bankastjóranum, ég á erfitt með að skilja það.

Ég þekki til á mörgum heimilum þar sem hefur verið þröngt í búi. Það fólk var ekkert að fara í Gallerí kjöt og kaupa sérsnyrta nautasteik, alls ekki. Þannig að tala með þeim hætti að lækkun matarskattsins muni skila sér jafnt til hátekjumanna og lágtekjumanna er bara rangt. Ef við höfum úr 5 milljörðum að spila, hvort mundi koma lágtekjufólki, millitekjufólki og barnafólki betur að verja þeim 5 milljörðum til hækkunar á barnabótum (Gripið fram í.) eða til lækkunar á matarskattinum? Ég trúi ekki öðru en hv. þingmenn Samfylkingarinnar sjái ljósið í öllu myrkrinu.

Hæstv. forseti. Ég gat því miður ekki verið hér í gær þegar verið var að ræða um kjör námsmanna almennt. Ég vil minna hv. formann Samfylkingarinnar á að á árunum 1991–1995 var endurgreiðslubyrði námslána 7%. Hverju lofuðum við framsóknarmenn í aðdraganda kosninganna 1995? Jú, að við mundum lækka endurgreiðslubyrði námsmanna (Gripið fram í: Um 5%.) og hún var lækkuð í 4,75%. Ríkisstjórnin tók enn eitt skrefið um daginn og varði aukalega 300 millj. kr. til Lánasjóðs íslenskra námsmanna og hefur lækkað endurgreiðsluhlutfallið í 3,75%. Þetta er mikill árangur í ljósi þess að ríkisstyrkurinn fór úr 49% og upp í 53%. Af 100 þús. kr. sem námsmaður þarf að eyða í háskóla borgar ríkið 53 þús. kr. í Lánasjóðinn og námsmaðurinn þarf á endanum að borga 47 þús. Svo talar hv. stjórnarandstaða um að við séum ekkert að gera fyrir námsmenn í landinu. Að við tölum ekki um 90% húsnæðislán og annað slíkt.

Það er einmitt þetta fólk sem mun græða hvað mest á þeim skattalækkunartillögum sem stjórnarandstaðan er á móti. (Gripið fram í: Frjálshyggjumennirnir.) Þetta fólk mun koma úr námi, kaupa sér eigið húsnæði, stofna fjölskyldu, þarf að vinna mikið, eðlilega, ég vona að hv. formaður Vinstri grænna skilji það að menn þurfa að vinna mikið þegar þeir eru að koma sér upp húsnæði og kaupa sér bíl og annað slíkt.

Í hverju lendir þetta fólk? Það vinnur mikið og hefur háar tekjur. Jú, vaxtabætur skerðast, hverfa nær alveg, og líka barnabætur vegna þess að fólkið er tekjuhátt. Hvernig eigum við að koma til móts við það fólk í þeim erfiðleikum sem það glímir við kannski á fyrstu fimm eða tíu árum hjúskapar síns? Með því að lækka tekjuskattsprósentuna (Gripið fram í: Hátekjuskattinn.) jafnvel hátekjuskattinn, því hátekjuskatturinn var ekkert orðinn neinn hátekjuskattur, fólk var að lenda í hátekjuskatti þegar það var komið með á fimmta hundrað þús. kr. í laun. Það þykja ekki hátekjur í dag þegar viðkomandi er að koma úr kostnaðarsömu námi með heilmikla greiðslubyrði. Ég hélt að stjórnarandstaðan talaði máli ungs fólks, sérstaklega þeirra sem hafa lokið langskólanámi, því það er enginn sældarleikur að koma sér upp heimili í núverandi ástandi. (Gripið fram í: Gott að þið áttið ykkur á því.) Við höfum áttað okkur á því en því miður hefur hv. stjórnarandstaða ekki áttað sig á því í hvers lags jaðaráhrifum þjóðfélagshópurinn lendir.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum segja að sá málflutningur sem viðhafður hefur verið í dag hefur náttúrlega verið villandi. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talar um óábyrga fjármálastjórn hjá ríkisstjórninni og að hún sé ekki að standa sig í stykkinu en gagnrýnir svo í hinu orðinu niðurskurð til vegamála og annað slíkt. Á ríkisstjórnin ekki að taka tillit til þróunar efnahagsmála með aðhaldi í ríkisútgjöldum á eins viðkvæmum tímum sem raun ber vitni? Ég hefði haldið það. En það er voðalega ódýrt að tala á þeim nótum sem hv. þingmaður gerir og nefnir þar einstakar vegaframkvæmdir. (Gripið fram í.) Það er mjög ódýrt ef menn vilja ekki horfa á heildarsamhengi hlutanna.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem var félagsmálaráðherra á árunum 1991–1995, talaði um hversu döpur stjórnin væri. Þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra var samneyslan rúm 40% af þjóðarframleiðslu. Hvað er hún í dag? Tæp 46%. Samneyslan hefur í tíð núverandi ríkisstjórnar hækkað um 5,5% og svo tala hv. stjórnarandstæðingar á þeim nótum að Framsóknarflokkurinn sé ekki lengur félagshyggjuflokkur. Hvað þýðir þessi þróun? Jú, við erum að verja auknum hlut af þjóðartekjum okkar til sameiginlegra verkefna. Málflutningurinn fellur því gjörsamlega um sjálfan sig hvað þetta varðar.

Mönnum er tíðrætt um hátekjuskattinn, Vinstri grænir ætla að hækka hátekjuskattinn og halda að með því muni hlutfallsleg hækkun verða í samræmi við það, að hækka hátekjuskattinn úr 10% upp í 18%, ekki rétt, hv. þingmaður (Gripið fram í: Hvaða rugl er þetta?) Eða var það 15%? (Gripið fram í: Það er fjármagnstekjuskattur.) Fjármagnstekjuskattur, fyrirgefðu. (Gripið fram í: Svo þú vitir hvað þú ert að tala um.) Ég veit það. (Gripið fram í: Nei.) Úr 10% upp í 18%. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál.

Ég held að hv. þingmenn Vinstri grænna verði að átta sig á því að við lifum á hinu Evrópska efnahagssvæði þar sem er frjálst flæði fjármagns. Telja Vinstri grænir að ekkert fjármagn mundi fara úr landi með þeim breytingum og þeim áherslum sem Vinstri grænir hafa gagnvart fjármagnstekjuskattinum?

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vill líka hækka hann. En fjármagnstekjuskattinum var ekki komið á fyrr en tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks svo að því sé haldið til haga. Ég varð ekki var við það þegar ég var að byrja að fylgjast með pólitík að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem þá var félagsmálaráðherra, væri að berjast neitt sérstaklega fyrir því. Ég held að menn verði að viðurkenna að þeir eigi sér einhverja fortíð. Það þýðir ekki að koma hér upp líkt og hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, jafnvel hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og tala eins og þau eigi sér enga fortíð, vegna þess að ástandið í dag og velmegunin er miklu meiri en þegar hv. þingmenn sátu í ríkisstjórninni. Allar opinberar tölur sanna það, sama hvort við horfum á þær innan lands eða frá OECD.

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta hér staðar numið. Hér er um mjög jákvætt mál að ræða. Ég dreg ekki úr því að mjög mikilvægt er fyrir ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana að gæta aðhalds í fjármálum og framkvæmdum, við þurfum vissulega að sýna aðhald á þeim vettvangi. En það er alveg á hreinu að samkvæmt því fjárlagafrumvarpi og þeirri langtímaspá sem við höfum gert og langtímaáætlun í ríkisfjármálum munu framlög til velferðarmála ekki skerðast. Þau munu aukast umfram þróun verðlags um 3%. Það er ekki niðurskurður í minni orðabók a.m.k.