131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Þjóðmálakönnun í Eyjafirði.

327. mál
[13:42]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra lét hafa eftir sér á heimasíðu sinni að það væri ekki markmið ríkisstjórnarinnar að föndra mikið við byggðirnar. Það vill svo til að það hefur einmitt verið gert, sérstaklega í sjávarbyggðunum. Er nærtækt að minna á skýrslu Byggðastofnunar, um hvaða breytingar mundu verða á Vestfjörðum með kvótasetningu í smábátakerfinu, þar sem því var lýst fyrir fram að störfum mundi fækka um 100 í fiskvinnslu og 200 við veiðar. Ráðherrar á hverjum tíma hefðu því átt að vita til hvers gæti dregið. Ef það er ekki að föndra við byggðirnar veit ég ekki hvað er að föndra við undirstöðu byggðanna.

Það er algerlega ljóst að fólk trúir ekki á þá útfærslu sem sjávarútvegsbyggðirnar byggja margar hverjar á og fólk treystir því ekki að atvinna þess verði tryggð til framtíðar. Þess vegna er vantrú í þessum byggðum.