131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Þungaskattur á orkugjöfum.

186. mál
[14:38]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greið svör og fyrir að upplýsa að engra breytinga sé að vænta að þessu leyti varðandi upptöku olíugjalds og nýs fyrirkomulags 1. júlí næstkomandi. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að það liggi fyrir. Það þarf að nota tímann vel til að undirbúa þá framkvæmd.

Ég þóttist reyndar sjá, þegar ég rak augun í frumvarpið sem hæstv. ráðherra hélt hér á lofti, að fyrirspurn minni hefði verið svarað óbeint með þeim hætti og mjög svo farsællega og ég þakka fyrir það. En ég vildi leyfa hæstv. ráðherra að upplýsa það sjálfum og svara til um það. Það hefði auðvitað verið bagalegt ef þarna hefði skapast millibilsástand.

Varðandi hvata til að nýta aðra orkugjafa má segja að lágmarkið sé að þeir séu skattfrjálsir á þróunar- og tilraunatíma. Sama gildi um bíla sem nota slíka orkugjafa. Auðvitað ættu þeir að vera án vörugjalda og ætti að hvetja til þess með enn þá meira afgerandi hætti en við höfum gert hingað til.

Það er að sönnu rétt að kerfisbreytingin leiðir það af sér að þungaskatturinn í núverandi mynd hverfur og þar með gjaldtaka sem var óháð því hvers eðlis eldsneytið var, ef það var annað en bensín en þannig var ástandið hér áður. Þó stendur eftir kílómetragjald á stórar bifreiðar sem auðvitað gæti þurft að huga að ef til þess kæmi að menn færu í tilraunastarfsemi sem tæki til notkunar á slíkum tækjum.

En hún er góð, svo langt sem hún nær, sú niðurfelling í formi aðflutningsgjalda eða vörugjalda af gas- og rafbílum og hybrid-bílum og öðru slíku. Ég held þó að í ljósi þess hversu hægt gengur að koma slíkum bílaflota í gagnið hér á landi — enn er ótrúlega lítið um rafmagnsbíla eða hybrid-bíla sem við Japansfarar sáum í stórum stíl á götum þar í landi — þá séum við að dragast nokkuð aftur úr öðrum þjóðum að þessu leyti. En það ætti að vera alveg öfugt. Ætti einhvers staðar í heiminum að vera virkileg framþróun í átt til aukinnar notkunar rafbíla og annarra orkugjafa en kolefniseldsneytis þá væri það hér.