131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fiskveiðistjórnarkerfi.

232. mál
[15:15]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Áður en ég beini spurningunni til hæstv. sjávarútvegsráðherra ætla ég að bregðast við svari hans, þ.e. að hann kalli það fordóma mína í garð stærðfræði að fallast ekki á þessa reikninga. Fordómar eru nú einu sinni það að dæma hlutina fyrir fram. Ég er að dæma þetta eftir á og ég horfi á árangursleysið. Ég tel að það séu ekki fordómar heldur að dæma þetta eftir árangursleysinu.

Hvað varðar þrefalda endurskoðun er rétt að segja frá því að þeir aðilar sem endurmátu reikniregluna voru ekkert að endurmeta forsendur fyrir reiknireglunni eða veiðireglunni. Þeir voru að kanna allt aðra hluti, hvort tölvurnar virkuðu eins á Hafró og í Bandaríkjunum. Þeir voru bara að fara yfir bókhald og útreikninga.

En nú er komið að fyrirspurninni og hún er á þessa leið: Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur ítrekað vitnað hróðugur í einhverja einkunnagjöf í bókinni The End of the Line, um hversu gott íslenska fiskveiðistjórnarkerfið er. Í stuttu máli er bókin hinn mesti óhróður um fiskveiðar, lýsir m.a. togveiðum með mjög ógeðslegum hætti og höfundurinn Charles Clover mælir einfaldlega gegn áti á þorski. Samt sem áður fer hæstv. sjávarútvegsráðherra í smiðju þessa manns til þess að finna rök fyrir ágæti íslenska kerfisins. Það lýsir auðvitað með miklum hætti örvæntingu hæstv. ráðherra fyrir að finna einhvern rökstuðning fyrir kerfinu. Þessi ágæti höfundur, Charles Clover, fullyrðir m.a. að megingalli íslenska kerfisins séu sóknarstýrðu trillurnar og telur að þær veiði 25% af öllum þorskafla á Íslandsmiðum. Raunveruleikinn er náttúrlega allt annar, eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra veit, veidd eru í kringum 5%, en þetta var meginvandamálið að mati Clovers.

Samt sem áður gefur bókarhöfundur íslenska kerfinu einkunnina 8 þrátt fyrir augljósa galla svo sem helmingi minni afla en fyrir daga kerfisins á meðan fiskveiðistjórn við Færeyjar fær einkunnina 6, en kerfið þar hefur skilað mun betri árangri en það íslenska. Þar er ekkert brottkast og aflatölur áreiðanlegar. Það sem höfundur hefur á móti Færeyingum er að þeir veiði of mikið. Samt sem áður kemur fram í bókinni að þorskstofninn við Færeyjar sé í mjög góðu ástandi, botnfiskstofnar þar hafi verið í stöðugum vexti og sömuleiðis afli. Í umræddri bók kemur fram að sóknarkerfið í Færeyjum virðist virka. Eina sem höfundur bókarinnar segir rangt er að veitt sé of mikið eða 33% af veiðistofninum. Samt sem áður viðurkennir höfundur að stofnarnir séu að stækka en hefur þann fyrirvara á að það sé vegna hagstæðra umhverfisskilyrða.

Ég er svo hissa eftir að hafa lesið (Forseti hringir.) um árangur færeyska kerfisins og hversu vel það virkar að (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra skuli ekki líta í meira mæli til þess.