131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:06]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hinn 25. mars 2003, þ.e. skömmu fyrir kosningar, var gengið frá samkomulagi við Öryrkjabandalag Íslands um sérstakar fjárhagslegar réttarbætur fyrir öryrkja. Um það segir svo í Morgunblaðinu 27. mars, og er vitnað í hæstv. heilbrigðisráðherra, með leyfi forseta:

„… báðir sögðumst við sannfærðir um að enginn stjórnmálaflokkanna mundi einn eða í samráði við aðra flokka reyna að rokka við því samkomulagi sem gert hefur verið.“

Þann 27. nóvember segir hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, þ.e. eftir kosningar, að ljóst sé að þarna vanti enn upp á og miðað við þá peninga sem hann hafi, 1 milljarð kr., geti hann „ekki farið í nema tvo þriðju“ að þessu sinni.

Í forustugrein Morgunblaðsins 13. október 2004 segir svo, með leyfi forseta:

„Kjarni málsins er sá, að ríkisstjórnin gerði samkomulag, sem flestir töldu að markaði tímamót í samskiptum hennar og öryrkja eftir áralangt stríð og málarekstur fyrir dómstólum. Samninga, sem gerðir eru, ber að efna.“

Nú leyfi ég mér að spyrja hv. þm. Magnús Stefánsson, formann fjárlaganefndar: Hvar sér þess stað í þessu fjárlagafrumvarpi og breytingartillögum sem hér eru lagðar fram að ríkisstjórnin ætli að standa við samning sinn við öryrkja, um þær rúmlega 500 millj. kr. sem gert var ráð fyrir á síðasta ári að hann kostaði? Þessa sér hvergi stað.

Menn finna svigrúm fyrir skattalækkanir sem voru nefndar sem kosningaloforð en finna ekki svigrúm til að standa við þetta kosningaloforð sem gefið var, þ.e. að standa við samninginn við öryrkja. Hverju sætir?