131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:14]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fann upp nýja aðferð til þess að hemja verðbólguna. Hann ætlar bara að plokka út þau atriði sem hafa hækkað og þá er allt í fínu lagi með verðbólguna.

Eins og hv. þm. sagði er hætta á því að verðbólgan valdi usla. Út af fyrir sig tjóir ekki fyrir okkur að deila um hvað veldur verðbólgunni, spurningin er frekar: Getum við sameinast um leiðir til þess að draga hana niður?

Hv. þm. talaði um skattalækkanir. Er hv. þm. þá ekki sammála mér um það að heppilegasta skattalækkunin við þessar aðstæður, sem gæti miðað að því að treysta forsendur kjarasamninga og draga úr verðbólgunni, er einmitt að lækka virðisaukaskatt af matvælum?

Ég gæti farið yfir rökin með því í löngu máli, frú forseti, en ég veit að hv. þm. þekkir þær röksemdir. Þess vegna spyr ég hann: Telur hann ekki heppilegt að ráðast í slíka skattalækkun núna þegar svigrúm er fyrir hendi til þess einmitt að draga úr þenslu og treysta forsendur kjarasamninga?