131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:26]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ætli sá sem dylgjar þurfi ekki að sæta níði.

Útgjaldavandi heilbrigðisráðuneytisins er fyrst og fremst fólginn í þáttum eins og læknasamningunum, sem hv. þm. þorði auðvitað ekki að eyða orði á, en ekki í þeirri lágmarksframfærslu sem öryrkjum er ætluð. Auðvitað er eitthvað um misnotkun í örorkukerfinu eins og öðrum kerfum. Það vitum við öll en er aðeins dregið fram til að ala á fordómum af hálfu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, því hann veit að ríkisstjórnin hefur svikið samkomulag það sem hún gerði við Öryrkjabandalag Íslands og reynir að breiða yfir það. Auðvitað á að standa við það samkomulag en ala ekki á fordómum með þessum hætti. Ég minni á að hv. þm. hefur ítrekað misnotað aðstöðu sína á Alþingi til að setja lög þar sem hann hefur brotið (Forseti hringir.) lágmarksmannréttindi um lágmarksframfærslu öryrkja og verið flengdur í Hæstarétti aftur og aftur (Forseti hringir.) svo hann ætti að tala varlega um ást sína á (Forseti hringir.) velferð og þeim sem verst standa í samfélaginu.