131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:53]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur komið í ljós sem mig grunaði, að hv. þingmaður hefur talið svo mikilvægt að þjónka stefnu Sjálfstæðisflokksins í skólagjaldamálum að hann hefur fallist á að taka upp þessi gjöld við háskólana. Hv. þm. svaraði því ekki hvort hann mundi líka þjónka stefnu Sjálfstæðisflokksins varðandi skólagjöldin í Tækniháskólann þegar hann verður sameinaður Háskólanum í Reykjavík.

Hvernig ætlar hv. þm. sem gumaði af skattalækkununum að útskýra það þegar niðurskurður á samgönguáætlun sem líka var hluti af kosningaloforðum Framsóknarflokksins og allir báru væntingar til að yrði staðið við …? (BJJ: Stöðugri.) Ja, bílarnir standa vel á veginum — ef hann er gerður. Þann stöðugleika vil ég fá, að staðið verði við samgönguáætlunina sem var lofað fyrir kosningar. Skattalækkanir koma íbúum í Norðaust. eða á Vestfjörðum sem bíða eftir bættum vegasamgöngum ekki sérlega vel, þeir vilja heldur að skattarnir séu greiddir og fá sína vegi. (Forseti hringir.) Það á ekki að svíkja eitt loforð til að standa við annað þótt maður vilji þjónka Sjálfstæðisflokknum.