131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:04]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hafi það ekki verið svik í fyrra þá voru það svik hérna áðan í þessum ræðustól fyrir fimm sekúndum síðan vegna þess að þá var hæstv. heilbrigðisráðherra a.m.k. að svíkja þá yfirlýsingu sem hann gaf í DV 27. nóvember 2003. Hæstv. heilbrigðisráðherra var í þessum orðum töluðum að lýsa því yfir að samkomulagið sem hann gerði þá væri, að því er hann segir núna, ekki upp á nema 1.000 milljónir. Það kemur hins vegar alveg skýrt fram í yfirlýsingu hans í DV 27. nóvember að hann er þá að lofa 1 milljarði og segir: „Það eru ekki nema tveir þriðju.“ Það þýðir að hann á eftir að leysa a.m.k. þann hluta loforðsins sem nemur 500 millj. kr. og er ógreiddur. Það sem hann segir í DV er yfirlýsing. Hann er a.m.k. að svíkja þá yfirlýsingu. Það finnst mér ekki stórmannlegt og allra síst gagnvart öryrkjum.