131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:06]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að hæstv. heilbrigðisráðherra er á flótta frá eigin loforðum. En hæstv. ráðherra getur ekki hlaupið frá því sem hann hefur sagt í þessu efni. Þau orð munu elta hann um ókomna framtíð. Þau munu líka elta hæstv. ráðherra inn í dómsali og það er á ábyrgð ríkisvaldsins að öryrkjar þurfa nú að leita með mál sitt eina ferðina enn inn í dómsali. Það stendur hér í blöðunum, virðulegi forseti, hvað hæstv. ráðherra hefur sagt í þessu efni og það er bara ekki hægt að hlaupa frá því.

Það hvarflar vissulega að manni, og lái manni hver sem vill, hvort það að ráðherra hafi þurft að svíkja loforðið við öryrkja, afneita öryrkjunum og þeim orðum sem hann hefur sagt, tengist eitthvað stólaskiptunum í Framsóknarflokknum fyrr á þessu ári.