131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:08]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hverju á maður að trúa? Ég hélt í lengstu lög að hæstv. ráðherra mundi standa við orð sín, mundi standa við það sem hann sagði í nóvembermánuði í fyrra, að hann gæti ekki efnt þá nema hluta, nema tvo þriðju af sínu loforði og að leita þyrfti leiða til að fullnusta samkomulagið. Mér finnst hafa orðið hamskipti á hæstv. ráðherra þegar hann nú greinilega lýsir því yfir, ef marka má orð hans hér áðan, að hann ætli ekki nú við 3. umr. að beita sér fyrir því að hægt sé að standa við þetta loforð. Hverju á maður að trúa, virðulegi forseti?

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um niðurskurðinn á Ríkisspítölunum. Fyrir liggur að þar verður um 600 millj. kr. niðurskurður. Til þess að mæta þessum niðurskurði hafa komið fram tillögur um að fara þurfi í einhverja hækkun á þjónustugjöldum. Ég spyr ráðherrann því í lokin: Mun ráðherra styðja það að farið verði út í einhvers konar sjúklingaskatta eða hækkun á þjónustugjöldum til þess að mæta þeim bráðavanda sem Ríkisspítalarnir standa frammi fyrir á næsta ári?