131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:46]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson getur ugglaust kennt mér eitthvað en hann þarf ekki að kenna mér prósentureikning, ég kann hann.

Ég er ekkert að ónotast yfir því að menn hafi góðar tekjur og há laun, það er engin óvild eða öfund af minni hálfu í garð slíkra manna. Ég get haft mínar skoðanir á því fyrirkomulagi sem hefur gert þeim kleift að auðgast. En ég hef eina skoðun og hún er ekki föl, ég tel að slíkir menn hafi efni á því að borga skatta. Þeir hafa getuna til að greiða til samfélagsins.

Svo kemur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hingað með prósenturnar sínar. Það er stórkostlegt. Það er stórkostlegt innlegg í þessa umræðu að vekja athygli okkar á því að 100 þús. kr. maðurinn, maður sem hefur hvorki meira né minna en heilar 100 þús. kr. í kaup, hugsið ykkur, borgar ekki nema 8%, segir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og er eiginlega alveg gapandi hissa á þessu. Hann borgar ekki nema 8%, 100 þús. kr. maðurinn. Nei, en hann er talinn borgunarmaður og það á heldur að bæta í það, er það ekki? Að minnsta kosti hafa skattleysismörkin þróast þannig.

Það er einmitt um þetta sem málið snýst. Hverjir eru aflögufærir til að leggja af mörkum til þeirra sameiginlegu félagslegu verkefna sem við erum ásátt um að leysa úr á sameiginlegum grundvelli í þessu landi? Þá kemur að því hverjir hafa getuna til að greiða eitthvað, leggja eitthvað af mörkum, og þar skilja leiðir með okkur. Ég tel 100 þús. kr. manninn ekki of haldinn af sínum 100 þús. kr. þótt hann fengi þær allar og þótt hann borgaði ekki 8% af þeim í skatta. En það er greinilega ekki skoðun hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að neitt sé að því.