131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[16:12]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar. Eins og ráðherrann rakti hér á þetta sér svolítið sérstæða sögu.

Ég minnist þess að hafa heyrt að því hafi verið fagnað að þetta viðfangsefni sem slíkt hefði verið vistað á Litla-Hrauni og að fangarnir hefðu haft verkefni vinna. Ég vil þá bara inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvernig þessari verkefnavinnu sé nú háttað. Kannski veit ráðherrann það ekki vegna þess að þetta er sjálfsagt á forsjá fangelsismálaráðherrans, en hvernig er þessari vinnu háttað nú? Ég held að það sé gríðarlegt hagsmunamál í sjálfu sér að verkefni séu unnin hjá Fangelsismálastofnun sem fangar geta haft bæði verklegan og fjárhagslegan ávinning af að vinna. Mér þætti mjög slæmt ef þessi breyting sem hér er verið að gera yrði til þess að þau verkefni yrðu tekin af vistmönnum í fangelsum. Ég held að það væri nær að byggja þar upp aukin verkefni í sjálfu sér.

Til að við ljúkum þessari sögu, herra forseti, með hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig er þessari vinnu háttað nú og hvernig er nú almennt vinnu háttað hjá föngum, hvort sem er á Litla-Hrauni eða annars staðar?