131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[16:24]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hæstv. fjármálaráðherra þegar hann segir að það sé vissulega matsatriði hvenær á að hækka gjöld og hvenær ekki. Það mat verður væntanlega að byggja á fjárþörf ríkisins og þeim verkefnum sem ríkið er að sinna.

Að sama skapi verða menn einnig að ræða það á hverja þau gjöld eigi að falla, og á hverja ekki. Þar hafa menn mismunandi sjónarmið uppi og skiptast jafnvel í stjórnmálaflokka á grunni þeirra.

En það sem ég var að gagnrýna er að í raun og veru er enginn rökstuðningur fyrir því hvers vegna nákvæmlega þessi gjöld eru hækkuð en ekki önnur. Það er erfitt að takast á í rökrænum umræðum um slíkt þar sem einungis segir að þau hafi ekki hækkað lengi.

Ég var að vekja athygli á að útgangspunkturinn í þessu hlýtur að vera hver fjárþörf ríkisins er, hvaða verkefni ríkið ætlar að ráðast í og hvers vegna þarf að fara í þessar hækkanir. Þetta hljóta að vera grundvallaratriði í þessu og þá vakna einnig spurningar: Af hverju þarf að leggja þessi gjöld á þá sem síst skyldi eins og hér er ætlunin að hækka dómsmálagjöld sem leggjast fyrst og fremst á þá sem ekki geta staðið undir skuldbindingum sínum?

Það er þetta sem ég vildi vekja athygli á og um leið taka undir að vissulega er gott að ákvarðanatakan um þessi gjöld sé hér á hinu háa Alþingi. En það er mjög mikilvægt að þegar hæstv. ríkisstjórn kemur inn með hugmyndir og tillögur af þessum toga þá séu þær vandlega rökstuddar, ekki einungis vísað til þess að tekjuáætlun geri ráð fyrir einhverju heldur greint hvers vegna þetta er gert og hvaða kostnaður fellur til sem þeim er ætlað að standa undir.