131. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[18:10]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og gefur að skilja höfum við ekki haft mikinn tíma til að kynna okkur efni frumvarpsins, enda var því dreift rétt í þessu. Hér er gert ráð fyrir talsverðri hækkun á áfengisgjaldi á sterku víni og tóbaksgjaldi, eða 7%. Gert ráð fyrir að aukning á tekjum ríkissjóðs verði um það bil 340 millj. kr. Eins og komið hefur fram í umræðum í dag virðast manni sem þau frumvörp sem hafa legið fyrir á þinginu í dag geri ráð fyrir allt að 700 millj. kr. aukningu á tekjum ríkissjóðs.

Eitt af þeim atriðum sem við munum skoða í hv. efnahags- og viðskiptanefnd síðar í kvöld, því mér skilst að til standi að boða til fundar í nefndinni í kvöld, er að leita leiða til að fá upplýsingar um hvaða áhrif 0,08% hækkun á vísitölu neysluverðs kunni að hafa á skuldir heimilanna og almennt á verðtryggðar skuldir í landinu. Ég held að mikilvægt sé að menn nái almennt vel utan um það sem verið er að gera og hvaða áhrif þetta kunni að hafa.

Ef skuldir heimilanna eru nálægt 300 milljörðum virðist mér í fljótu bragði að ofan á þær 340 millj. kr. aukningu á tekjum ríkissjóðs gæti bæst 240 millj. kr. eða svo við skuldir heimilanna. Hér er því um verulega háar fjárhæðir að ræða og mikilvægt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd kalli til fólk sem geti skýrt þetta eins vel fyrir okkur og kostur er.

Það kemur hins vegar ekki fram í frumvarpinu að hækkun gjalds á sterkt vín beri með sér þá stefnumörkun sem ríkisstjórnin hefur tekið í áfengismálum. Ég vil beina áfengisneyslu almennings í landinu meira inn á létt vín og bjór í stað þess að drekka sterkt vín, en það er væntanlega eitt af því sem við þurfum að skoða. Ef þetta er angi af slíkri hugmyndafræði held ég að rétt sé að menn skoði þá vandlega að lækka til móts við þetta gjald á létt vín og bjór í því skyni að þetta hafi ekki áhrif á neysluvísitöluna. Ég held því að þetta hljóti að vera eitthvað sem efnahags- og viðskiptanefnd muni skoða mjög vandlega í yfirferð sinni í kvöld til þess að við getum fengið góða yfirsýn yfir það sem hér er á ferðinni.

Það er sama með þetta gjald eins og önnur gjöld sem við höfum rætt í dag að röksemdafærslan er ekki sú að ríkissjóður standi það illa að sérstök þörf sé á gjaldtökunni, heldur hitt að verið er að uppfæra verðið til samræmis við verðlagsþróun og ekkert annað. Það er líka eitthvað sem við verðum að skoða mjög vandlega á fundinum í kvöld.

Að sama skapi hljótum við að þurfa að kalla til Samtaka ferðaþjónustunnar því þau hafa mjög mótmælt þeim gjöldum sem lögð eru á áfengi hér á landi og talið að það hafi slæm áhrif á aukningu ferðamanna til Íslands. Það er því alveg ljóst að margt er að skoða í frumvarpinu og það dugar ekki eitt að vísa til þess að nauðsynlegt sé að fara í hækkanirnar fyrst og fremst vegna þess að þær hafa ekki hækkað síðan í nóvember 2002. Það er einfaldlega engin röksemdafærsla fyrir þessu.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi höfum við ekki haft mikinn tíma til að skoða frumvarpið og því erum við ekki í stakk búin til að lýsa yfir hvernig við munum afgreiða það. Ég tel að við verðum betur í stakk búin til þess eftir vandlega yfirferð í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég hef þegar óskað eftir því við formann nefndarinnar, hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem fagnaði ógurlega í síðustu viku og sagði að sér liði alveg óskaplega vel þegar skattalækkunarfrumvarpið kom, og brosir enn þrátt fyrir að verið sé að hækka álögur á landsmenn. Það virðist því vera sama hvað gert er, allt kætir hv. þm. Pétur H. Blöndal.

Að sinni er ekki ástæða til að hafa um þetta fleiri orð önnur en þau að mikilvægt er að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari vandlega í gegnum málið og hvaða áhrif þetta komi til með að hafa á verðtryggðar skuldir, einkum skuldir heimilanna. Ef tekjuaukning ríkissjóðs, eins og ég nefndi áðan, verður 340 millj. kr., eru skjótdregnar ályktanir mínar af því hvaða áhrif þetta kann að hafa á skuldir heimilanna að þær verði um 600 millj. kr. Eru þá ekki taldar með aðrar verðtryggðar skuldir og því um gríðarlega mikla breytingu að ræða sem við munum fara vandlega yfir.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar sjái til þess að umfjöllun nefndarinnar verði þannig að við eigum auðveldara með að taka afstöðu til málsins eftir þá umfjöllun. Ég vænti þess að málið skýrist í meðförum nefndarinnar í kvöld.