131. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[18:43]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ekki veit ég hvernig þetta gengur fyrir sig í Hreppunum nú til dags en í Borgarfirðinum gildir örugglega hið fornkveðna sem sótt var í Biblíuna, að hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta. Ég er út af fyrir sig ánægður með þær áherslur sem koma fram í máli hæstv. fjármálaráðherra, þ.e. hann bendir á þá staðreynd að frá manneldislegu og heilsufarslegu sjónarmiði sé miklu heppilegra að hækka ekki gjald á léttu víni en frá heilsufarslegu sjónarmiði er líka heppilegt að fara þá leið að hækka gjaldið á sterka víninu og tóbakinu. Það er alveg rétt.

Ef hæstv. fjármálaráðherra er þeirrar skoðunar að það þurfi að hækka álögur til að vega upp á móti þeim skattalækkunum sem hann er að beita sér fyrir er þetta út af fyrir sig ágætisleið. Ef menn hafa hins vegar sjónarmið heilsufræðinnar að leiðarljósi ættu þeir miklu frekar að velta fyrir sér hvort ekki ætti að hækka álögur á tóbaki og á sterku víni en nota það sem þannig fæst í kassann til að lækka álögur á léttu vínunum, ekki bara vegna þess að það gleður mannsins hjarta heldur vegna þess að nú liggur alveg ljóst fyrir að það hefur ákveðið forvarnagildi að neyta ákveðins magns af léttu víni. Svo einfalt er það, frú forseti.

Ég kem hingað aðeins þó til að halda örstutta ræðu og ræða þetta mál í samhengi við önnur sem hér hafa verið rædd í dag og síðustu daga, þ.e. skattalækkanir eða skattahækkanir. Á síðustu dögum hefur hæstv. ríkisstjórn verið að berja sér á brjóst sökum loforða um að hún ætli sér að lækka skatta einhvern tíma í framtíðinni, þ.e. rétt í þann mund sem kosningar bresta á. Það að vísu tókst ekki hönduglegar til hjá hæstv. ríkisstjórn en svo að hæstv. fjármálaráðherra þurfti að boða sérstakan fund í flokksmusterinu að morgni laugardags til að gera enn eina tilraun til að koma því til skila hvað þetta væri gott fyrir þjóðina. Þetta er auðvitað algjörlega ómöguleg þjóð sem við búum við og hún neitaði hreinlega að skilja það hjá hæstv. ráðherra að þetta væri eitthvað sérstaklega gott fyrir hana. Eins og hæstv. ráðherra sagði, hér er verið að þegja í hel einhverja mestu skattabyltingu sem lögð hefur verið til. Skyldi það nú vera, frú forseti, að það hafi ekki verið um neina þöggun að ræða heldur hafi þjóðin einfaldlega skilið það að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar fólu í sér ójöfnuð, stór hluti þeirra, og þar að auki voru þær hálfgerðir furðufuglar í skógi. Svo einfalt er það nú.

Þegar við skoðum síðan hvað er að gerast í dag blasir það við að íslensk alþýða er að fá á sig klyfjar sem í fljótu bragði er hægt að leggja niður á milljarð. Þegar við þau gjöld, sem verið er að leggja á landsmenn vegna hækkaðra aukatekna ríkissjóðs sem var rætt í dag ásamt þeim álögum sem hér er verið að ræða, er bætt þeim skuldaböggum sem valda hækkun vísitölunnar vegna þessa máls sem við erum hér að ræða er hægt að reikna sig fast að milljarði. Ríkisstjórnin er sem sagt búin að leggja til bagga á herðar landsmanna í dag sem hægt er að vigta upp á milljarð. Í fyrra kom þessi sama ríkisstjórn líka og lagði hvers konar álögur á landsmenn sem hægt er að vigta upp á 3,5–4 milljarða. Þegar við leggjum þetta saman, frú forseti, blasir við að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar frá því að hún tók við má leggja á um u.þ.b. 5 milljarða ef við leggjum þetta allt saman sem ég hef hér verið að rekja. Frú forseti. Hvað er það mikið sem á að lækka skattana um á næsta ári? Eru það ekki 5 milljarðar? Gæti það þá verið að sú lækkun sem verið er að leggja til í skattbyrði landsmanna og metin er á 5 milljarða sé ekki bara tekin til baka í dag heldur hafi hún verið tekin að hluta til til baka í fyrra? Ef við leggjum saman þessi tvö ár kemur ríkisstjórnin út í plús frá sjónarhóli ríkissjóðs. Kynni það að vera að allt það sem þessi ríkisstjórn hefur verið að segja um bættan hag landsmanna strax á næsta ári sé bara hjóm eitt og vitleysa þegar maður leggur þetta allt saman?

Ég velti því t.d. fyrir mér hver niðurstaðan yrði ef það væri skoðað hvernig millitekjufjölskyldan hefur komið út miðað við upphaf kjörtímabilsins og stöðuna í lok næsta árs eins og áætlað er að hún verði þegar tekjuskattslækkun ríkisstjórnarinnar er komin til framkvæmda. Niðurstaðan yrði auðvitað þannig, frú forseti, að hátekjumaðurinn með sína helmingslækkun á hátekjuskatti og flata tekjuskattsprósentulækkun upp á 1% kemur auðvitað fínt út. Hann fær í vasa sinn einhverja tugi þúsunda, jafnvel hundruð þúsunda. Það er hins vegar hugsanlegt að þegar dæmi meðaljónsins sem þarf að sæta öllum þeim álögum sem hafa verið að hækka í fyrra og núna á þessum degi er reiknað komi hann ekkert miklu betur út, og jafnvel ekkert betur. Þetta er eitt af því sem við þurfum að skoða.

Ef þetta hugboð mitt reynist vera rétt, að breytingin sé harla lítil fyrir meðaltekjumanninn og þann sem er jafnvel með lægri tekjur, verð ég að segja að lítið lagðist fyrir kappann, hæstv. fjármálaráðherra, að koma hér og tala um einhverjar skattabyltingar. Byltingin blasir þá bara við í hugsanlegum skattalækkunum sem koma til framkvæmda rétt fyrir kosningar og enginn veit hvernig staðan verður þá. Og það er sjálfsagt að draga inn í þessa umræðu að greiningardeild Íslandsbanka sendi frá sér spá í dag og hún var ekki fögur fyrir hæstv. fjármálaráðherra. Þar er því spáð að vextir taki á rás og verði um mitt næsta ár komnir upp í 10%. Þar er því spáð að verðbólgan sé komin úr böndum. Svo kemur hæstv. fjármálaráðherra og gerir skop og gys að þeim mönnum sem voga sér að hlusta á sérfræðinga við Háskóla Íslands, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og annars staðar sem tala um að það gæti verið að skattalækkanirnar sem hæstv. ráðherra er að lofa til framtíðar séu ekki sá ávinningur sem verið er að lofa almenningi í krafti skattabyltinga eins og hæstv. ráðherra orðaði það.

Gæti verið að þegar hæstv. ráðherra kom og kvartaði undan því að verið væri að þagga niður gríðarlega merkilegt frumvarp sem hann hefur lagt fram væri niðurstaðan bara sú að almenningur í landinu er ekki fífl, eins og fram hefur komið? Hann skilur bara hvað er að gerast og hann veit að miðað við þær álögur sem eru að dynja á fólki t.d. í dag, t.d. með ýmsum samþykktum í fyrra, er ákaflega umdeilanlegt hvort meðaljóninn kemur eitthvað betur út í lok næsta árs en hann var í upphafi þessa kjörtímabils.