131. löggjafarþing — 43. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[21:43]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt til að svara þessu þá hefur samneyslan ekki aukist um 6–7% heldur einungis tæp 2%, það er alveg nóg og í hámarki.

En ég hélt að hv. þingmaður þyrfti ekki spyrja hvers vegna hefði orðið aukning á tekjum. Þegar veltan og umsvifin aukast í þjóðfélaginu þá hækka tekjurnar vegna skatta, vegna virðisaukaskatts, aðflutningsgjalda og annars slíks, það er mjög einfalt, bara út af aukinni veltu.

En þingmenn Samfylkingarinnar reyna að gera lítið úr skattalækkunum, það er eitur í þeirra beinum, þeir ættu heldur að samfagna með okkur stjórnarliðum, m.a.s. vinstri grænir eru farnir að taka þátt í fagnaðarlátunum með okkur.

En þið eruð orðinn sá sérflokkur sem var talað um hér í dag, sérstaki flokkur sem kemur fyrir kosningar og lofar skattalækkunum og svo þegar kosningarnar eru afstaðnar þá eruð þið á móti skattalækkunum. Í stuttu máli er það nákvæmlega svona sem Samfylkingin hagar sér.

Til að fara í gengum þetta aftur fyrir hv. þingmann, þá er búið að lækka erfðafjárskatt, eftir eitt ár verður búið að afnema sérstakan tekjuskatt. Það er búið að ákveða að hækka barnabætur. Það er búið að ákveða að afnema eignarskatt eftir eitt ár og það er búið að ákveða að lækka tekjuskatt um 4%, þetta eru skattalækkanir en ekki skattahækkanir.

Varðandi þetta með vínið þá þurfa menn að sýna sanngirni og segja ekki bara að þetta séu skattahækkanir, þegar verið er að færa sterk vín að núgildandi verðlagi. Núgildandi verðlagi, hv. þingmaður. En síðan er verið að lækka léttu vínin og bjórinn, það er verið að lækka verðið á því. Það er meira en nemur hækkuninni á sterku vínunum. Nettó er því um að ræða enn eina skattalækkun.