131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:21]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og oft áður væri nú tilefni til að ræða ýmislegt sem kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Það sem ég vil hins vegar fá að nefna hér er umfjöllunin um upplýsingar varðandi framvindu rekstrarstofnana. Af máli hv. þingmanns mátti skilja að einstök ráðuneyti hefðu ekki forsendur til að hafa eftirlit með rekstri viðkomandi stofnana sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti. Ég tel hins vegar ástæðu til að koma því að að auðvitað hafa ráðuneytin eftirlit með stofnunum sínum. Ég veit mörg dæmi þess að ráðuneyti hafa átt fundi með forstöðumönnum stofnana á þessu ári til að fara yfir rekstur þeirra. Ráðuneytin eru auðvitað í sambandi við stofnanir sínar og fylgjast með framvindu rekstrar þeirra.

Hins vegar get ég alveg tekið undir með hv. þingmanni að það er ekki gott fyrir fjárlaganefndina að við höfum ekki fengið umbeðnar upplýsingar fyrr en nánast á síðustu stundu. Ég tek undir það. Við höfum að vísu fengið skýringar á því frá fjármálaráðuneytinu af hverju það er. Ég geri ráð fyrir að á næsta ári verði þessi upplýsingamiðlun miklum mun skilvirkari en var á þessu ári. Ég veit að hv. þm. veit hvað ég er að tala um í því efni. Ég vildi bara leggja áherslu á það að auðvitað fylgjast ráðuneytin með framvindu rekstrar stofnana sinna og það eru fjölmörg dæmi um að þau eiga fundi með forstöðumönnum til að fara yfir þau mál.