131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[17:17]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Æ ofan í æ þurfum við að hlusta hér á ræður um skattahækkanir þegar verið er að hækka krónutölur í skattalögum og krónutölur í gjöldum. Þeir sem upplifðu verðbólgu fyrir 10, 15, 20 árum muna og vita nákvæmlega af biturri reynslu að óbreytt krónutala lækkar að verðgildi eða raungildið lækkar þegar verðbólga er. Þess vegna, ef gjöld eru ekki hækkuð eða skattar í verðbólgu sem nú er metin 3,5% á ári, þá eru þau í rauninni að rýrna. Þau eru að rýrna að verðgildi og því er um skattalækkun að ræða.

Í gær ræddum við um skatta á bjór og léttvín en það gjald hafði lækkað að raungildi um 22% frá 1998 en það hefur verið óbreytt í krónutölu. Það hefur verið skattalækkun allan tímann og verður áfram.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann skilji þetta. Hvort hann vilji þá beita sömu reglu á persónuafsláttinn, sem er nákvæmlega sama fyrirbærið. Það er krónutala í skattalögum, sem menn hafa verið að hækka í hlutfalli við hækkun verðlags, (Gripið fram í: Nei.) verið að hækka í hlutfalli við verðlagsforsendur fjárlaga, en svo getur verið að þær hafi ekki alltaf staðist. En þetta hefur alltaf verið hækkað og stjórnarandstaðan hefur krafist þess að það verði hækkað eins og verðlag og ætti að krefjast þess að önnur gjöld hækkuðu eins og verðlag með nákvæmlega sama rökstuðningi. Ég skil því ekki þessa umræðu, því gjald sem hefur ekki hækkað í tvö ár og ætti að hækka um 7%, en er hækkað um 3,5%, það er í mínum huga skattalækkun.