131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:05]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Það var hins vegar lítið sem ekkert að græða á svörum hans. Stjórnmálamenn eiga að koma með skýra leiðsögn og framtíðarsýn fyrir almenning. Hæstv. forsætisráðherra veitti enga slíka framtíðarsýn í svari sínu. Hann ypptir hins vegar öxlum og vísar öllu á fólkið í landinu.

Árangurslaus fjárnám einstaklinga hafa verið 17 þús. sl. fjögur ár, 17 þús., herra forseti. Ríkisstjórnin er hins vegar með viðhorf afskiptaleysis eins og kemur fram í afstöðunni gagnvart skuldastöðu almennings. Hv. stjórnarþingmenn kölluðu eftir hvað þeir gætu beinlínis gert. Ríkisstjórnin getur gripið til margra aðgerða við að leggja sitt af mörkum til að sporna gegn aukinni skuldasöfnun í samfélaginu. Í fyrsta lagi gæti ríkisstjórnin horfst í augu við vandann og viðurkennt hann.

Í öðru lagi gæti ríkisstjórnin tekið mark á þeim aðvörunarmerkjum í efnahagslífinu sem hlutlausir aðilar eru sífellt að benda henni á.

Í þriðja lagi gæti ríkisstjórnin lækkað matarskattinn eins og við í Samfylkingunni viljum gera. Það lækkar neysluverðsvísitölu og þar af leiðandi afborganir af lánum.

Í fjórða lagi gæti ríkisstjórnin lagt fram trúverðug fjárlög sem standast þegar á hólminn er komið.

Í fimmta lagi gæti ríkisstjórnin leyst sveitarfélögin úr spennitreyjunni sinni.

Í sjötta lagi má benda á ýmsar sérhæfðar leiðir, svo sem greiðsluaðlögun skuldugra einstaklinga.

Hæstv. forsætisráðherra og fleiri bentu á það að skuldasöfnun væri í sjálfu sér ekki vandamál þar sem eignir hefðu aukist jafnmikið á móti. Það er hins vegar ekki rétt. Seðlabankinn hefur bent á það að t.d. á síðasta ári hefur skuldamyndun fyrirtækja ekki nema að litlu leyti tengst fjármunamyndun fyrirtækjanna. Ég held að það sé alveg augljóst að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur beðið skipbrot og það hörmulega er að hún tekur með sér í fallinu þúsundir heimila sem eru að sligast undan lánum sínum.

Ég legg því til, herra forseti, að við snúum þessari þróun við og byggjum upp heilbrigt efnahagslíf byggt á minni lántökum.