131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[15:46]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki tekið sérstaklega eftir að þarna væri eitthvert ósamræmi, (MÁ: Hafðirðu ekkert heyrt um það?) en það er sú lagagrein sem kemur til með að verða samþykkt sem lög frá Alþingi sem skiptir máli í þessu sambandi, ef af verður.

Þetta er ekki stórmál að mínu mati, en ég held að við getum talað opinskátt um að í frumvarpinu er verið að tala um að nýta auðlindina. Ég held að það sé ekkert launungarmál. Hins vegar hefur allt sín takmörk og við höfum líka lög um mat á umhverfisáhrifum og þess vegna fara allar stærri framkvæmdir í það ferli sem lög um mat á umhverfisáhrifum kveða á um.

Að mínu mati er það ekki stórmál sem hv. þingmaður nefnir þarna, en þó getur verið að þarna sé um eitthvert misræmi að ræða, og ef svo er álít ég að sé hægt að skoða það í nefndinni. Þetta er allt til umfjöllunar.